Ítalska stórveldið Juventus er að nálgast samkomulag við Fenerbahce um félagaskipti fyrir Youssef En-Nesyri.
En-Nesyri fer til Juve á lánssamningi með kaupmöguleika en hann er 28 ára framherji sem hefur verið að gera flotta hluti í tyrkneska boltanum.
En-Nesyri gerði garðinn frægan í fremstu víglínu hjá Sevilla þar sem hann vann Evrópudeildina í tvígang og skoraði í heildina 73 mörk í 196 leikjum áður en hann var keyptur til Fenerbahce fyrir 20 milljónir evra sumarið 2024, sem var metfé fyrir tyrknesku deildina á þeim tíma.
Á því eina og hálfa ári sem hefur liðið síðan En-Nesyri var keyptur til Fenerbahce hafa tyrknesk félög sótt í sig veðrið á leikmannamarkaðinum. En-Nesyri er núna í sjöunda sæti yfir dýrustu leikmenn í sögu deildarinnar, Victor Osimhen trónir á toppinum eftir að Galatasaray keypti hann úr röðum Napoli fyrir 75 milljónir.
Þessi landsliðsmaður Marokkó er kominn með 38 mörk í 77 leikjum með Fenerbahce. Hann er lykilmaður í sterku landsliði Marokkó með 25 mörk í 92 leikjum.
Þessar fregnir þýða að Juventus er líklegast að hætta við áform sín um að krækja í Jean-Philippe Mateta úr röðum Crystal Palace. Félagið hefur einnig verið orðað við Albert Guðmundsson en Fiorentina virðist ekki vilja selja.
Athugasemdir


