Lokaumferðin í riðlakeppni Reykjavíkurmótsins fer fram í dag þar sem topplið riðlanna keppast um sæti í úrslitaleiknum.
Íslandsmeistarar Víkings R. eru í mjög góðri stöðu í A-riðlinum þar sem þeir eiga fullt hús stiga eftir þrjár umferðir og nægir jafntefli gegn Fram til að gulltryggja sæti sitt í úrslitaleiknum.
Jafnvel þó Víkingar tapi gegn Fram er líklegt að þeir haldi toppsætinu á markatölu. ÍR situr í öðru sæti, þremur stigum og fimm mörkum á eftir Víkingi, og mætir Leikni í áhugaverðum nágrannaslag.
Það er meiri spenna í B-riðli þar sem Þróttur R. trónir á toppinum með fullt hús stiga eftir frábæra sigra gegn Val og KR en Fylkir getur stolið senunni.
Árbæingar geta jafnað Þrótt á toppi riðilsins með tveggja marka sigri. Þriggja marka sigur og Fylkir nær toppsætinu af Þrótti - svo lengi sem KR gjörsamlega valtar ekki yfir Val.
KR þarf kraftaverk til að taka toppsætið. Fimm marka sigur gæti nægt, þó eingöngu samhliða hagstæðum úrslitum úr hinum leiknum.
Reykjavíkurmót karla - A-riðill
14:00 Víkingur R.-Fram (Víkingsvöllur)
14:30 ÍR-Leiknir R. (Egilshöll)
Reykjavíkurmót karla - B-riðill
14:00 Valur-KR (N1-völlurinn Hlíðarenda)
14:00 Þróttur R.-Fylkir (AVIS völlurinn)
Athugasemdir



