Trafford vill fara frá City - Gallagher og Brown til Man Utd? - Arsenal fær tvíbura - Guendouzi aftur til Englands - Mateta á förum?
banner
   þri 02. desember 2025 11:30
Elvar Geir Magnússon
Dregið í riðla fyrir HM á föstudaginn - Þessi lið verða í pottunum
HM bikarinn sem barist verður um.
HM bikarinn sem barist verður um.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Á föstudaginn verður dregið í riðla fyrir HM næsta sumar en keppnin verður í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Drátturinn hefst klukkan 17:00 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á RÚV 2.

Það verða 48 þátttökulið á mótinu og þeim skipt í fjóra styrkleikaflokka með tólf liðum hver.

Bandaríkin, Kanada og Mexíkó verða í fyrsta styrkleikaflokki ásamt níu efstu liðum á FIFA styrkleikalistanum. Riðlarnir tólf verða skipaðir einu liði úr hverjum styrkleikaflokki.

Það eru enn sex laus sæti á mótinu en þau ráðast í gegnum umspil í mars. Liðin sem vinna umspilið fara í fjórða styrkleikaflokk svo Ítalía verður í neðsta styrkleikaflokki komist liðið á mótið.

Mest geta verið tvær Evrópuþjóðir í sama riðli og að auki munu fjögur efstu lið FFIA listans; Spánn Argentína, Frakkland og England, ekki geta mæst fyrr en í undanúrslitum í fyrsta lagi ef þau vinna riðlana sína.

42 lið hafa tryggt sér sæti:

Styrkleikaflokkur 1: Kanada, Mexíkó, Bandaríkin, Spánn, Argentína, Frakkland, England, Brasilía, Portúgal, Holland, Belgía, Þýskaland.

Styrkleikaflokkur 2: Króatía, Marokkó, Kólumbía, Úrúgvæ, Sviss, Japan, Senegal, Íran, Suður-Kórea, Ekvador, Austurríki, Ástralía.

Styrkleikaflokkur 3: Noregur, Panama, Egyptaland, Alsír, Skotland, Paragvæ, Túnis, Fílabeinsströndin, Úsbekistan, Katar, Sádi-Arabía, Suður-Afríka.

Styrkleikaflokkur 4: Jórdanía, Grænhöfðaeyjar, Gana, Curacao, Haítí, Nýja-Sjáland, fjögur lið úr umspili UEFA, tvö lið úr alþjóðlegu umspili.



Hvaða lið mætast í umspilinu
Í umspilinu í Evrópu mun sigurvegarinn úr leik Wales og Bosníu mæta sigurvegaranum úr leik Ítalíu og Norður-Írlands um sæti á HM; sigurvegarinn úr Úkraína - Svíþjóð mætir sigurvegaranum úr Pólland Albanía; sigurvegarinn úr Slóvakía - Kósovó mun mæta sigurvegaranum úr Tyrkland - Rúmenía og sigurvegaerinn úr Tékkland - Írland mun mæta sigurvegaranum úr Danmörk - Norður-Makedónía.

Í alþjóðlega umspilinu, sem fram fer í Mexíkó, mun Nýja-Kaledónía mæta Jamaíku í leik um að spila úrslitaleik gegn Kongó. Sigurvegarinn úr Bólivía - Súrínam mun keppa við Írak um sæti á HM. Umspilsleikirnir eru allir stakir.
Athugasemdir
banner
banner