Scott Parker þjálfari Burnley var ekki ánægður með frammistöðu lærlinga sinna í 2-0 tapi gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Georginio Rutter og Yasin Ayari skoruðu mörkin í þægilegum sigri þar sem Burnley ógnaði marki Brighton lítið sem ekkert.
Burnley er í næstneðsta sæti deildarinnar með 12 stig eftir 20 umferðir, sex stigum frá öruggu sæti. Liðið er aðeins búið að ná í tvö stig úr síðustu ellefu deildarleikjum og vann síðast fótboltaleik í október.
„Við vorum mjög lélegir og áttum ekki skilið að fá neitt úr þessum leik. Þetta er ekki eins og flestir aðrir leikir þar sem við sýnum flotta frammistöðu en fáum ekkert út úr þeim. Við litum mikið betur út í tapinu gegn Newcastle í siðustu umferð. Það veldur mér áhyggjum að það vantaði trúna og baráttuviljann í liðið á köflum," sagði Parker að leikslokum.
„Þó að úrslitin hafi ekki dottið með okkur þá höfum við verið að byggja á ákveðnum atriðum, sem voru því miður ekki til staðar í dag. Strákarnir hafa sýnt alvöru metnað og baráttuvilja hingað til, en það var eitthvað minna um það í dag. Það er ekki í lagi að tapa með þessum hætti, ég vil sjá leikmennina bregðast við þessu í næsta leik.
„Það eina jákvæða er að það eru bara sex stig í öruggt sæti, en við erum ekki að fara að bjarga okkur ef við ætlum að skila fleiri frammistöðum eins og í dag. Þetta var hörmung."
Burnley fékk einhver færi til að skora en Parker segir að það bjargi ekki frammistöðunni. „Ég gæti staðið hérna og sagt að við klúðruðum góðu færi undir lok fyrri hálfleiks til að jafna og skutum svo í slána í seinni hálfleik þegar við gátum minnkað muninn í eitt mark. Það væri bull útaf því að við vorum aldrei með í þessum leik, við litum aldrei út fyrir að hafa neina trú á því sem við vorum að gera."
Parker var að lokum spurður út í leikmannamarkaðinn en gat ekki gefið nein örugg svör. Burnley er að skoða sig um á markaðinum þar sem liðið er að glíma við mikið af meiðslum en mögulegt er að félagið þurfi að lána út eða selja leikmenn áður en það getur bætt við sig þar sem hópurinn er nú þegar stór.
„Við getum kannski leyst eitthvað á leikmannamarkaðinum en það er erfitt. Við erum með stóran hóp hérna nú þegar og við verðum að bíða og sjá hvað gerist á næstu vikum. Við erum að horfa í kringum okkur."
Stöðutaflan
England
Premier league - karlar
| L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| 1 | Arsenal | 20 | 15 | 3 | 2 | 40 | 14 | +26 | 48 |
| 2 | Man City | 20 | 13 | 3 | 4 | 44 | 18 | +26 | 42 |
| 3 | Aston Villa | 20 | 13 | 3 | 4 | 33 | 24 | +9 | 42 |
| 4 | Liverpool | 20 | 10 | 4 | 6 | 32 | 28 | +4 | 34 |
| 5 | Chelsea | 20 | 8 | 7 | 5 | 33 | 22 | +11 | 31 |
| 6 | Man Utd | 20 | 8 | 7 | 5 | 34 | 30 | +4 | 31 |
| 7 | Brentford | 20 | 9 | 3 | 8 | 32 | 28 | +4 | 30 |
| 8 | Sunderland | 20 | 7 | 9 | 4 | 21 | 19 | +2 | 30 |
| 9 | Newcastle | 20 | 8 | 5 | 7 | 28 | 24 | +4 | 29 |
| 10 | Brighton | 20 | 7 | 7 | 6 | 30 | 27 | +3 | 28 |
| 11 | Fulham | 20 | 8 | 4 | 8 | 28 | 29 | -1 | 28 |
| 12 | Everton | 20 | 8 | 4 | 8 | 22 | 24 | -2 | 28 |
| 13 | Tottenham | 20 | 7 | 6 | 7 | 28 | 24 | +4 | 27 |
| 14 | Crystal Palace | 20 | 7 | 6 | 7 | 22 | 23 | -1 | 27 |
| 15 | Bournemouth | 20 | 5 | 8 | 7 | 31 | 38 | -7 | 23 |
| 16 | Leeds | 20 | 5 | 7 | 8 | 26 | 33 | -7 | 22 |
| 17 | Nott. Forest | 20 | 5 | 3 | 12 | 19 | 33 | -14 | 18 |
| 18 | West Ham | 20 | 3 | 5 | 12 | 21 | 41 | -20 | 14 |
| 19 | Burnley | 20 | 3 | 3 | 14 | 20 | 39 | -19 | 12 |
| 20 | Wolves | 20 | 1 | 3 | 16 | 14 | 40 | -26 | 6 |
Athugasemdir


