Oliver Sigurjónsson hefur lagt fótboltaskóna á hilluna aðeins 30 ára gamall vegna meiðsla.
Oliver ólst upp hjá Breiðabliki og þótti gríðarlega mikið efni. Hann var algjör lykilmaður upp yngri landslið Íslands og var hjá AGF í Danmörku í tvö ár frá 17 til 19 ára aldri, áður en hann snéri aftur til Breiðabliks og varð lykilmaður fyrir meistaraflokk.
Oliver skipti til Bodö/Glimt í Noregi 2017 en fann sig ekki þar svo hann snéri aftur til Breiðabliks.
Síðustu árin hefur Oliver verið að glíma við meiðsli en hann spilaði 17 leiki í deild og bikar með Aftureldingu í fyrra. Meiðslin eru það erfið að hann hefur ákveðið að reyna fyrir sér á öðru sviði fótboltans.
„Sjúklega skemmtileg vegferð. Takk allir sem komu að mínum ferli og þá vil ég sérstaklega þakka konunni minni, mömmu og pabba. Ég er stoltur af sjálfum mér og mínum ferli. Hlakka til að halda áfram í fótbolta á öðruvísi hátt," sagði Oliver í færslu á samfélagsmiðlum.
Athugasemdir



