100% einbeittur að Palace út tímabilið
Oliver Glasner þjálfari Crystal Palace hélt svakalegan fréttamannafund í dag, tæpri viku eftir að hafa gagnrýnt stjórn félagsins harðlega fyrir sölur á lykilmönnunum Eberechi Eze og Marc Guéhi á krítískum tímasetningum.
Í síðustu viku staðfesti Glasner að hann mun yfirgefa Palace þegar samningur hans rennur út næsta sumar, en Glasner er orðinn goðsögn hjá félaginu á sínum stutta tíma við stjórnvölinn.
18.01.2026 14:00
Glasner verður ekki rekinn
Fréttamannafundur Glasner í dag tók hálftíma og ræddi hann meðal annars um kvöldverð sem hann snæddi með Steve Parish formanni Crystal Palace.
„Ég var mjög tilfinningaríkur eftir leikinn um síðustu helgi og þetta sýnir hversu miklu máli Crystal Palace skiptir mig. Þetta snýst ekki bara um söluna á fyrirliðanum (Marc Guéhi), ég var búinn að gefa grænt ljós á þá sölu eftir fund í febrúar í fyrra. Ég er bara ósáttur með tímasetninguna, við höfðum ekki tíma til að finna leikmann til að fylla í skarðið," sagði Glasner meðal annars.
„Ég veit að Crystal Palace selur leikmenn þegar nægilega góð tilboð berast en það er skrýtið að segja liðinu 28 klukkustundum fyrir úrvalsdeildarleik að fyrirliðinn hafi verið seldur. Það er ekki góð tilfinning og þetta er það sem ég vildi miðla með viðtalinu mínu frekar heldur en að benda á einhverja sökudólga.
„Ég átti mjög gott spjall við Steve Parish yfir kvöldverði og við erum sáttir. Ég er 100% einbeittur að Crystal Palace út tímabilið."
Glasner sagði einnig á fundinum að hann sæi ekki eftir ummælum sínum frá síðustu helgi og að hann gæti ekki lofað að eiga ekki fleiri tilfinningarík viðtöl í framtíðinni.
Hann ræddi einnig um Jean-Philippe Mateta sem hefur verið orðaður við Juventus, Aston Villa og Manchester United meðal annars. Enskir fjölmiðlar segja að Mateta sé búinn að fara fram á sölu, en Glasner segir það ekki vera rétt. Hann býst við að Mateta verði í byrjunarliðinu í grannaslag gegn Chelsea um helgina.
Dean Henderson mun taka við fyrirliðabandinu hjá Palace út tímabilið eftir söluna á Guéhi.
21.01.2026 13:56
Mateta tilkynnir Palace að hann vilji fara
Athugasemdir





