mið 03. ágúst 2022 19:40
Ívan Guðjón Baldursson
Fulham er búið að bjóða í fjóra miðverði
Mynd: EPA

Fulham vann Championship deildina í fyrra og ætlar að styrkja vörnina fyrir komandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni.


Félagið er með mörg skotmörk og hefur lagt fram tilboð í fjóra miðverði, samkvæmt Sky Sports. Aðeins tveir þeirra eru nafngreindir, Malang Sarr hjá Chelsea og Issa Diop hjá West Ham.

Chelsea hafnaði kauptilboði Fulham í Sarr en nýliðarnir lögðu einnig fram lánstilboð. Sarr getur því valið á milli lánstilboða frá Fulham og Mónakó og mun velja franska félagið.

Sarr er 23 ára og á þrjú ár eftir af samningi sínum við Chelsea.

Fulham bætti þá tilboð sitt í Diop í þriðja sinn. Það hljóðaði fyrst upp á 10 milljónir punda og svo 12 milljónir en West Ham hafnaði því. Nýtt tilboð er 15 milljóna virði en Hamrarnir eru taldir vilja fá 20 milljónir.

Diop, 25 ára, spilaði 26 leiki á síðustu leiktíð en aðeins helming þeirra í úrvalsdeildinni og hinn helminginn í bikarkeppnum og Evrópudeild.

Fulham er þegar búið að krækja í markvörð, hægri bakvörð, tvo miðjumenn og kantmann í sumar en Marco Silva knattspyrnustjóri vill einnig fá einn til tvo nýja miðverði. Félagið er búið að borga rúmar 40 milljónir fyrir þessa nýju leikmenn sína.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner