Magni Fannberg er hættur hjá sænska félaginu IFK Norrköping eftir rétt rúmlega ár í starfi sem yfirmaður fótboltamála hjá félaginu.
Norrköping greinir frá þessu og talar um þetta sem sameiginlega ákvörðun hjá Magna og stjórn félagsins.
Magni er 45 ára gamall og hefur áður starfað hjá Brommapojkarna, Brann, AIK og Start. Hann hefur einnig verið hluti af njósnateymi íslenska karlalandsliðsins, auk þess að hafa starfað með hinum ýmsu félögum á Íslandi.
„Ég er mjög stoltur af því sem við höfum afrekað við erfiðar aðstæður hérna. Ég er viss um að félagið og einstaklingarnir innan þess séu núna betur í stakk búnir fyrir næstu áskoranir," sagði Magni meðal annars, en hann var ráðinn á mjög erfiðum tímum fyrir Norrköping með það sem meginmarkmið að hjálpa til við að laga efnahag félagsins.
Norrköping er í neðri hluta sænsku deildarinnar sem stendur, sjö stigum fyrir ofan fallsæti. Arnór Ingvi Traustason, Ísak Andri Sigurgeirsson og Jónatan Guðni Arnarsson eru meðal leikmanna félagsins.
IFK Norrköping och föreningens sportchef för herrlaget, Magni Fannberg, har gemensamt beslutat att gå skilda vägar.
— IFK Norrköping (@ifknorrkoping) October 3, 2025
Läs mer på https://t.co/F2iAbxNKwR pic.twitter.com/PAnQZdth7F
Athugasemdir