Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 03. desember 2020 21:58
Brynjar Ingi Erluson
Evrópudeildin: Þægilegur sigur Arsenal - AZ gerði jafntefli við Napoli
Pablo Mari fagnar marki sínu með Arsenal
Pablo Mari fagnar marki sínu með Arsenal
Mynd: Getty Images
Rúnar Alex Rúnarsson var öruggur í rammanum
Rúnar Alex Rúnarsson var öruggur í rammanum
Mynd: Getty Images
Arsenal vann Rapid Vín örugglega, 4-1, er liðin mættust í Evrópudeildinni í kvöld en Rúnar Alex Rúnarsson stóð í marki Arsenal í leiknum. AZ Alkmaar gerði þá jafntefli við Napoli.

2000 manns fengu að mæta á Emirates-leikvanginn í kvöld og fagnaði Alexandre Lacazette því með frábæru marki á 9. mínútu. Hann lét vaða af 25 metra færi og fagnaði vel og innilega ásamt stuðningsmönnunum.

Pablo Mari var næstur á blað. Hann skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Reiss Nelson níu mínútum síðar. Eddie Nketiah bætti við þriðja markinu undir lok fyrri hálfleiks. Hann lét vaða á markið en markvörðurinn varði hann aftur út á hann og tókst Nketiah að stanga boltann í netið.

Rúnar Alex fékk þriðja leik sinn í Evrópudeildinni. Hann átti afar fínan leik og gat lítið gert í marki austurríska liðsins en hann varði fyrst skot Yusuf Demir út í teiginn og fengu gestirnir að taka tvö skot til viðbótar áður en boltinn fór í netið.

Hann varði svo stuttu síðar aukaspyrnu frá Demir. Arsenal tókst að gera fjórða markið á 66. mínútu og að þessu sinni var það Emile Smith Rowe eftir sendingu frá Ainsley-Maitland Niles.

Lokatölur 4-1 sigur Arsenal og var liðið þegar búið að tryggja sig áfram í 32-liða úrslitin en það er með 15 stig á toppnum. Molde vann Dundalk 3-1 í sama riðli en liðið mætir Rapid Vín í hreinum úrslitaleik um sæti í 32-liða úrslitunum í næstu viku.

Albert Guðmundsson var þá í byrjunarliði AZ Alkmaar sem gerði 1-1 jafntefli við Napoli í Hollandi. Dries Mertens kom Napoli yfir á 6. mínútu áður en varnarmaðurinn sterki, Bruno Martins Indi, jafnaði metin á 54. mínútu. Albert fór af velli fyrir Myron Boadu á 70. mínútu.

AZ er í þriðja sæti riðilsins með 8 stig, jafnmörg og Real Sociedad sem er í öðru sæti. AZ mætir Rijeka í lokaleiknum en AZ vann fyrri leikinn 4-1.

PAOK er þá úr leik í E-riðlinum eftir 2-1 tap gegn Omonia Nicosia en Sverrir Ingi Ingason var allan tímann á varamannabekknum. Liðið er með 5 stig, fjórum stigum á eftir PSV sem er í öðru sæti.

Úrslit og markaskorarar:
Athugasemdir
banner
banner
banner