Carrick gæti stýrt æfingu Man Utd á miðvikudag - Everton vill White frá Arsenal - Dortmund fylgist með Bobb
   mán 12. janúar 2026 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ætlar að fá allavega tvo til viðbótar - „Spennandi tímar framundan hjá KA"
'Það er æðislegt að fá Jeppe og Montiel inn í hópinn'
'Það er æðislegt að fá Jeppe og Montiel inn í hópinn'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jeppe kom til KA frá Vestra.
Jeppe kom til KA frá Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Diego Montiel kom líka í KA frá Vestra.
Diego Montiel kom líka í KA frá Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir Sigurgeirs fékk hrós frá Hadda.
Ásgeir Sigurgeirs fékk hrós frá Hadda.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við erum spenntir að byrja þetta allt, við erum bjartsýnir og það er gaman að Þórsarar séu mættir í sömu deild'
'Við erum spenntir að byrja þetta allt, við erum bjartsýnir og það er gaman að Þórsarar séu mættir í sömu deild'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jakob Héðinn er kominn af stað með KA.
Jakob Héðinn er kominn af stað með KA.
Mynd: Ármann Hinrik
Á föstudag tilkynnti KA Jeppe Pedersen sem nýjan leikmann félagsins. Jeppe kemur til félagsins frá Vestra en þar var hann lykilmaður og skoraði sigurmarkið í bikarúrslitaleiknum gegn Val í ágúst.

Danski miðjumaðurinn er þriðji leikmaðurinn sem KA krækir í þennan veturinn því áður höfðu þeir Jakob Héðinn Róbertsson og Diego Montiel samið við félagið.

Fótbolti.net ræddi við Hallgrím Jónasson, þjálfara KA, eftir að Jeppe var tilkynntur.

Mjög sáttir
„Það er æðislegt að fá Jeppe og Montiel inn í hópinn sem verður talsvert breyttur frá því í fyrra, slatti af leikmönnum farnir af mismunandi ástæðum og ég er mjög ánægður að fá tvo menn sem eru góðir í þessari deild og flottir karakterar. Við skoðuðum þá vel, líka hvernig þeir eru utan vallar, og fengum ótrúlega mikil meðmæli frá fólki sem hefur verið í kringum þá, bæði þjálfurum og fólki í kringum þá. Við erum mjög sáttir," segir Haddi.

„Montiel er frábær á boltann úti vinstra megin, hann skoraði bæði mörk Vestra á móti okkur í sumar. Hann er líkur Birni (Snæ Ingasyni) að því leyti að hann fær boltann í lappir og getur leikið á menn eða tekið 'einn-tveir' framhjá þeim. Jeppe er miðjumaður með gríðarlega mikla hlaupagetu, hann er á flottum aldri. Við erum búnir að missa marga miðjumenn og missa hlaupagetu t.d. í Bjarna Aðalsteinssyni. Jeppe passar vel inn í okkar lið til þess að fá rétta jafnvægið á miðjuna."

„Við fengum líka Jakob Héðin sem er með hraða og getur bæði spilað frammi og kantinum. Hann skoraði tíu mörk í fyrstu deild og er mjög spennandi leikmaður og hefur byrjað flott hjá okkur á æfingum."


Talandi um miðsvæðið, þarftu að fá fleiri leikmenn inn á miðsvæðið?

„Nei, ekki eins og staðan er núna. Við erum með sex leikmenn, þar á meðal þrjá unga sem eru farnir að banka fastar og fastar á hjá okkur. Við erum eins og staðan er með nægan leikmannafjölda inn á miðjunni."

Miðjumennirnir ungu, Snorri Kristinsson, Mikael Breki Þórðarson og Valdimar Logi Sævarsson, spiluðu með KA síðasta sumar og stefna á stærra hlutverki á komandi tímabili. Reynslumeiri leikmenn á miðsvæðinu eru þeir Rodri og Hallgrímur Mar Steingrímsson, og svo er Jeppe kominn til félagsins.
Mun sakna Bjarna og sýnir fjölskylduaðstæðum skilning
Bjarni Aðalsteinsson samdi við danska félagið Roskilde fyrir áramót og verður ekki með KA á næsta tímabili. Kom það á óvart og eru það vonbrigði að hann verði ekki áfram?

„Hann var mikið í Danmörku síðasta vetur, kærasta hans er í námi þar og hann kom seint inn til okkar. Við vissum að hún yrði áfram í náminu, en auðvitað vonaðist maður til þess að hann myndi koma og verða með okkur. Þetta eru ekki jákvæðar fréttir að hann sé ekki áfram, fótboltalega séð langaði hann að vera hjá okkur og okkur langaði að hafa hann, en við skiljum fjölskylduaðstæður."

„Bjarni er á frábærum aldri, með frábæra hlaupagetu, toppstrákur og góður leikmaður fyrir KA. Auðvitað munum við sakna hans og við vonumst til að hann muni koma til okkar aftur þegar hann mun búa á Íslandi."

„Það er líka með þennan aldur í KA, þú vilt vera með góða blöndu og við höfum verið með rosa flotta leikmenn á þessum aldri sem eru farnir: Brynjar Inga Bjarnason, Daníel Hafsteinsson, Svein Margeir Hauksson, Þorra Mar og Nökkva Þey Þórisson og núna Bjarna. Það eru margir farnir sem eru á toppaldri, sem er vont. Við gerum eins vel og við getum úr stöðunni eins og við höfum alltaf gert í KA og það er gott að Jeppe er á mjög flottum aldri og kemur inn í staðinn. Það er ekkert launungarmál að ég væri alveg til í að vera með nokkra af þessum gaurum áfram í KA.""


Ætlar að fá allavega tvo til viðbótar
Almennt út í hópinn, vilt þú fá inn ákveðið marga leikmenn fyrir móti og þarftu að styrkja einhverja ákveðna stöðu?

„Við munum sækja allavega tvo leikmenn. Ég vil ekki ræða leikstöðu akkúrat núna. Ég er með leikmenn sem geta spilað fleiri en eina stöðu á vellinum. Við erum með ákveðnar hugmyndir um eiginleika sem við viljum fá inn."

Eins og þjálfarinn segir vill hann ekki nefna stöðu á vellinum varðandi styrkingu. Hann var sérstaklega spurður út í framherjastöðuna en þar er hann með Ásgeir Sigurgeirsson og Jakob Héðin sem kosti í fremstu stöðu. „Ég ætla ekki að tjá mig um stöðurnar sem ég vil styrkja, en já, það mun koma inn einn sóknarsinnaður leikmaður, það er stefnan."

„Ásgeir er búinn að vera flottur, ef tölfræði hans er skoðuð síðustu ár þá er hún góð miðað við spilaðar mínútur. Hann er ekki orðinn þrítugur og við erum í fínum málum með fremstu stöðu. Þetta eru 27 leikir og bikarleikir, mikið álag. Ásgeir á sína meiðslasögu og það er ekki sanngjarnt til þess að hann geti tekið alla leiki 90 mínútur. Hann er ekki þar í dag, en hann er frábær fyrir okkur þegar hann spilar."


Bæting frá því í fyrra
Það eru þrír mánuðir fram að móti, er búið að kortleggja þetta allt út og orðið klárt?

„Nei nei, það verður held ég aldrei þannig hjá okkur úti á landi. Þetta er aðeins flóknara hjá okkur. Ég held að KA hafi aldrei verið tilbúið með hópinn á hópinn á þessum tíma. En við erum komnir með þrjá leikmenn og erum í betri málum með markmannsstöðuna og varnarlínuna miðað við sama tíma í fyrra. Varnarlínan er tilbúin og allir í standi, sem er bæting frá því í fyrra."

„Við erum spenntir að byrja þetta allt, við erum bjartsýnir og það er gaman að Þórsarar séu mættir í sömu deild. Loksins eru liðin í sömu deild, efstu deild, sem er mjög spennandi. Það er spennandi sumar framundan, förum á nýjan leikvang einhvern tímann í sumar, ungu strákarnir eru komnir nær þessu og mínútunum þeirra mun fjölga í sumar. Það eru spennandi tímar framundan hjá KA,"
segir Hallgrímur.
Athugasemdir
banner