Glugginn í Sádi-Arabíu er enn opinn - Onana, Sterling, Disasi, Santos og Silva orðaðir við félög þaðan
   fim 04. september 2025 11:09
Fótbolti.net
Botna ekki í ákvörðun Grindavíkur - „Mér finnst þetta út í hött“
Lengjudeildin
Haraldur Árni Hróðmarsson.
Haraldur Árni Hróðmarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Stefán Marteinn
„Nú ætla ég aðeins að hjóla í menn. Hversu ömurleg vinnubrögð innan knattspyrnudeildarinnar að stjórnarmenn vita ekki allir af því að það eigi að reka þjálfarann? Til hvers í andskotanum er verið að reka Halla Hróðmars með tvo leiki eftir þegar liðið er enn í fínum möguleika á að halda sér uppi?" segir Haraldur Örn Haraldsson, fréttamaður Fótbolta.net, um þá ákvörðun Grindavíkur að láta þjálfarann Harald Árna Hróðmarsson taka pokann sinn.

Rætt var um ákvörðunina í hlaðvarpsþætti um Lengjudeildina. Grindavík tapaði gegn Völsungi um síðustu helg og hefur aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum sínum. Liðið er í tíunda sæti Lengjudeildarinnar aðeins stigi frá fallsæti.

„Halli Hróðmars var í erfiðustu stöðunni í Lengjudeildinni, það var bara korter í mót og hann vissi ekki hvar liðið væri að fara að spila. Það var æft hér og þar og stundum var mjög fámennt á æfingum hjá honum. Hann var að æfa í Kaplakrika og Álftanesi," segir Sölvi Haraldsson í þættinum.

„Hann hefur varla verið í fallsæti á þessu tímabili þrátt fyrir að það hafi verið talað um að leikmannahópurinn sé sá slakasti í deildinni. Hann var með miklu minna fjármagn en Grindavík hefur verið með síðustu ár. Ég er enn að átta mig á þessari ákvörðun."

Talað er um að Haraldur hafi gert vel í erfiðri stöðu hjá félaginu, meðal annars á leikmannamarkaðnum, og mönnum þykir dapurt hjá Grindavík að leyfa honum ekki að klára mótið.

„Við hverju býst stjórnin af þessum hóp? Þetta eru lánsmenn frá ÍA, slakir útlendingar og ungir lekmenn. Við hverju á að búast af þessu? Mér finnst þetta út í hött," segir Haraldur Örn.

Marko Valdimar Jankovic og Anton Ingi Rúnarsson munu stýra Grindavík í síðustu tveimur leikjum tímabilsins; gegn ÍR og Njarðvík. Marko var aðstoðarþjálfari og Anton hefur þjálfað yngri flokka og kvennalið Grindavíkur.
Leiðin úr Lengjunni: Þróttarar að toppa á réttum tíma og glórulaus ákvörðun hjá Grindavík
Athugasemdir
banner