Steven Zhang (t.v.) er eigandi Inter en hann þarf að finna leiðir til að að greiða 375 milljóna evra lán fyrir 20. maí
Ítalska félagið Inter hefur beðið Albert Guðmundsson, leikmann Genoa, um að bíða á meðan félagið finnur lausnir á fjárhagsvandamálum sínum, en þetta kemur fram í Gazzetta dello Sport.
Albert er að eiga stórkostlegt tímabil með Genoa. Hann hefur skorað 14 mörk og lagt upp 3 á fyrstu leiktíð sinni í Seríu A.
Stærstu félögin á Ítalíu hafa sýnt honum gríðarlegan áhuga síðustu mánuði og eru Ítalíumeistarar Inter taldnir leiða það kapphlaup.
Gazzetta dello Sport segir að Inter geti ekki fest kaup á honum strax.
Þannig er mál með vexti að Steven Zhang, eigandi Inter, er með lán hjá Oaktree Capital Management. Fresturinn á að greiða sjóðnum 375 milljónir evra rennur út 20. maí næstkomandi.
Þangað til getur Inter ekki keypt leikmenn, né endurnýjað við menn á borð við Nicolo Barella, Lautaro Martinez og þjálfarann, Simone Inzaghi.
Á dögunum hafnaði Oaktree tilboði Zhang um að framlengja lánsfrestinn um eitt ár, en ef það næst ekki samkomulag fyrir 20. maí er yfirtaka líklegasta niðurstaðan.
Inter er sannfært um að það geti fundið lausn fyrir 20. maí og hefur því beðið Albert um að bíða. Gazzetta dello Sport segir að hann hafi gefið þeim loforð um að bíða þolinmóður.
Mörg félög munu seilast eftir kröftum hans í sumar og er áhugi alls staðar úr Evrópu, meðal annars úr ensku úrvalsdeildinni, en Inter vill forðast það að fara í uppboð við önnur félög.
Genoa hefur sett 30 milljóna evra verðmiða á íslenska landsliðsmanninn og eru taldar yfirgnæfandi líkur á því að hann taki stökkið í sumarglugganum.
Athugasemdir