Ronaldo vill fá Casemiro til Sádi-Arabíu - Man Utd gæti gert lánstilboð í Kolo Muani - Dortmund hefur áhuga á Rashford
   þri 07. janúar 2025 09:30
Hafliði Breiðfjörð
Elísabet gagnrýnir karlalið Vals: Hefði tekið við því síðasta sumar ef það hefði boðist
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karlalið Vals fagnar á Hlíðarenda í sumar.
Karlalið Vals fagnar á Hlíðarenda í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Grétarsson yfirgaf Val 1. ágúst í sumar.
Arnar Grétarsson yfirgaf Val 1. ágúst í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísabet Gunnarsdóttir segir að ef henni hefði boðist að taka við karlaliði Vals síðasta sumar þá hefði hún ekki hugsað sig um í eina sekúndu enda sér hún mikið rúm til bætingar þar og hefði elskað þá áskorun.

Elísabet er í viðtali við Silju Úlfarsdóttur í hlaðvarpsþættinum Klefanum sem birtist í dag. Þar fer hún yfir þjálfaraferilinn.

Smelltu hér til að heyra þáttinn á Spotify.

Elísabet hætti með Kristianstad í Svíþjóð fyrir rúmu ári síðan og þjálfaði ekkert síðasta sumar. Hún átti í viðræðum við Chelsea en hlaut ekki starfið. Elísabet segir frá því í viðtalinu að móðir hennar hafi veikst illa og hún hafi ákveðið að helga sumrinu til að aðstoða hana í veikindunum og að ná bata. 1. október hafi hún svo byrjað að svipast um eftir vinnu.

Valur skipti um þjálfara hjá karlaliðinu 1. ágúst síðastliðinn þegar Arnar Grétarsson var látinn fara og Srdjan Tufegdzic tók við liðinu. Elísabet segir að ef hún hefði fengið símtalið að þessu sinni þá hefði hún stokkið til.

„Já mig myndi langa það," svaraði hún aðspurð hvort það kæmi til greina að taka við karlaliði. „Ég get lofað þér því að ef Valur hefði hringt í sumar og boðið mér að taka við karlaliðinu þá hefði ég tekið það á einni sekúndu," bætti hún við.

„Það er svo ótrúlega margt sem þarf að taka til í því liði og ég hefði elskað þá áskorun. Ég horfi á leiki liðsins og sá vandamál í samskiptum milli leikmanna. Þegar ég horfði á leikina hugsaði ég, 'oh my god' hvað ég væri til í að fara og gera eitthvað í þessu rugli!."

Aðspurð hvað hún hefði viljað gera sagðist Elísabet ekki geta svarað því í hlaðvarpsþætti og að hún væri ekki til í að fara að nafngreina leikmenn í gagnrýni sinni.

„Ég er bara með skoðanir á því að samskipti leikmanna inni á vellinum séu skrítin og skýr merki þess inni á vellinum að liðið getur ekki náð árangri eins og það horfir við mér. Það þarf að vinna með það með því að vera á staðnum á hverjum degi og finna út sínar strategíur og leggja púslið. "

„Það er örugglega fullt af fólki sem heyrir mig segja þetta núna og segir 'oh, þú hefðir aldrei getað þjálfað þetta karlalið. Það er bara rangt, þetta er ekkert kona, maður, eitthvað. Það er örugglega fullt af strákunum í liðinu sem hefðu horft á mig og spurt sig 'hvað er hún að fara að segja við okkur?' Við erum bara manneskjur og þetta snýst bara um að vinna saman, eiga skýr samskipti og þora að segja það sem manni finnst. Svo þarf að leggja púslið fótboltalega og útfrá leiðtogahæfni."

Smelltu hér til að heyra þáttinn á Spotify
Túfa tók við Val í sumar. | Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Athugasemdir
banner
banner
banner