Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   lau 08. júní 2024 10:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þetta er það Ísland sem maður elskar
Guðmundur Aðalsteinn skrifar frá London
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Icelandair
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, með þjálfarateymi sínu.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, með þjálfarateymi sínu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslensku leikmennirnir fagna sigrinum í gær.
Íslensku leikmennirnir fagna sigrinum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við skemmdum partýið.
Við skemmdum partýið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var mikil stemning eftir leikinn.
Það var mikil stemning eftir leikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þetta var svo gaman!
Þetta var svo gaman!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Dagur fagnar marki sínu á Wembley.
Jón Dagur fagnar marki sínu á Wembley.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska liðið vann einn sinn besta sigur í gær.
Íslenska liðið vann einn sinn besta sigur í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þetta gerðist bara í alvörunni.

Það var ógleymanlegt að vera á Wembley í gærkvöldi þegar Ísland vann einn sinn stærsta sigur í fótboltasögunni. Þetta var ekki keppnisleikur, en samt var sigurinn risastór. Það er alltaf þannig þegar þú vinnur England á fótboltavellinum og sérstaklega þegar Englendingar ætla sér að halda eitthvað stórt partý rétt áður en þeir fara á EM.

Það voru ekki margir sem voru að búast við sigri Íslands áður en flautað var til leiks í gær, en eftir því sem leið á leikinn þá fór maður að trúa. Og þegar í seinni hálfleikinn var komið, þá hafði maður einhvern veginn aldrei áhyggjur. Það er ótrúlegt að segja það þegar Ísland er að spila við England á Wembley, en þannig var það bara.

Það eru farin að sjást merki á íslenska landsliðinu sem eru ekki búin að sjást lengi. Þau sáust svo sannarlega ekki í þjálfaratíð Arnars Þórs Viðarssonar - allavega mjög sjaldan - en eftir að Age Hareide tók við liðinu þá er íslenska landsliðið búið að endurheimta gömul gildi sem hafa gert liðið svo gott í gegnum tíðina.

Skipulag, agi, barátta, einvígi og allir að berjast fyrir hvorn annan fram á síðustu mínútu. Þetta hljómar einfalt, en er það ekki alltaf. Þegar íslenska landsliðið er í þeim ham sem það var í gær, þá elskar þjóðin að horfa á það.

En það er ekki bara eins og þetta hafi eingöngu snúist um einhverja baráttu. Það voru líka mikil gæði í sóknarleiknum. Sjáiði bara markið sem Ísland skorar. Hákon Arnar Haraldsson, sá mikli töframaður, kemur lengst niður til að sækja boltann og liðið flytur hann svo upp með frábæru spili. Strákarnir okkar yfirspiluðu England í þessu marki.

Ég er búinn að horfa á þetta mark aftur og aftur:


Það hefur verið ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með Hákoni eftir að Hareide tók við, sérstaklega í síðustu leikjum. Hann hefur fengið svona frjálsa rullu og hefur blómstrað í henni. Hann er einstakur leikmaður sem færir þessu íslenska liðið svo mikið og það var unun að fylgjast með honum á Wembley í gær. Það var eins og hann væri að leika sér bara á grasinu heima á Akranesi en ekki fyrir framan 90 þúsund manns. Á velli með Phil Foden, Harry Kane og Cole Palmer, þá stal hann besti maður vallarins.

Og Hákon er ekki sá eini sem hefur verið að gera vel undir stjórn Hareide. Arnór Ingvi Traustason hefur verið besti leikmaður liðsins, Sverrir Ingi Ingason hefur verið að stíga upp og Jón Dagur Þorsteinsson hefur verið að leika afar vel. Þá höfum við eignast frábæran aðalmarkvörð í Hákoni Rafni Valdimarssyni sem virðist ætla að vera í þessum ramma næstu 15 árin eða meira. Hann er að fá það besta út úr þessu liði.

Eins og Guðmundur Benediktsson, sá ástæli íþróttafréttamaður, orðaði það svo vel í gær, þá er það „með ólíkindum að einhverjir haldi að Åge sé ekki rétti maðurinn til að stjórna þessu liði." Liðið hefur verið að taka frábær skref í síðustu leikjum og var óheppið að fara ekki á EM í mars síðastliðnum. Undir hans stjórn hefur liðið verið að finna aftur þessi gömlu góðu gildi sem náðist svo góður árangur með þegar Lars og Heimir stýrðu liðinu í bland við frábæran fótbolta inn á milli. Hann er klárlega búinn að sýna að hann sé rétti maðurinn í starfið.

Þetta er það sem íslenska landsliðið á að snúast um.

Einhverjir hafa gagnrýnt það að Age sé ekki duglegur að mæta í persónu á fréttamannafundi þegar hópar eru tilkynntir, en mér persónulega gæti ekki verið meira sama um það að spyrja hann spurninga í gegnum Zoom á meðan liðið spilar svona eins og það gerði í gær. Undir hans stjórn hefur maður trú á því að liðið geti gert alvöru atlögu að því að komast á HM 2026. Þessi leikur í gær sýndi skýr merki um það og ég held að þessi sigur gæti verið mikilvægari en fólk heldur í þeirri vegferð.

Það sem er mikilvægast er að leikmenn hafa trú og maður skynjar það sterkt þegar maður ræðir við þá. Það hefur margt breyst á síðustu mánuðum hjá þessu liði, í jákvæða átt.. „HM 2026 og EM 2028," skrifaði Ísak Bergmann Jóhannesson á Instagram þegar liðið rétt missti af því að komast á EM sem fram fer í sumar og maður mikið að sú verði raunin. Það er allt svo miklu betra þegar fótboltalandsliðinu gengur vel.

Það er orðið miklu skemmtilegra að horfa á þetta lið og ég er svo sannarlega farinn að hafa meiri trú á vegferðinni. Með þetta þjálfarateymi held ég að maður geti leyft sér að dreyma - allavega að einhverju leyti - um Bandaríkin, Kanada og Mexíkó árið 2026. Age er orðinn sjötugur en ég vona að hann taki nokkur ár í viðbót og þá getum við kannski öll leyft okkur að dreyma um fleiri glæsta sigra eins og í gærkvöldi.
Athugasemdir
banner
banner