Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 08. júlí 2020 09:11
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Sýnum dómurum virðingu
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Þóroddur Hjaltalín.
Þóroddur Hjaltalín.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Raggi Óla
Mikil athygli hefur verið á dómgæslu í íslenskum fótbolta undanfarið, að margra mati það mikil að athyglin er að fara frá leiknum sjálfum, sem ætti auðvitað að vera aðalatriðið. Það er alltaf best þegar athyglin er á liðunum, leikjunum sjálfum og leikmönnunum. Best er þegar dómararnir eru nánast ósýnilegir, ef svo má að orði komast.

En auðvitað er það ekki alltaf þannig því dómarar þurfa oft að taka mikilvægar ákvarðanir í leikjunum og óhjákvæmilega gera dómarar mistök, eins og aðrir þátttakendur leiksins. Þá kemur eðlilega fram gagnrýni á þeirra störf. Svo hefur verið í gegnum tíðina og mun halda áfram að vera svo. Gagnýni á alltaf rétt á sér en hún verður að vera málefnaleg og byggð á þekkingu á knattspyrnulögunum og þeim áherslum sem eru í gildi hverju sinni.

Mikil vinna er í gangi innan KSÍ þegar kemur að þjálfun og undirbúningi dómara, hvort sem það er líkamlegi eða tæknilegi þátturinn. Hjá dómaranefnd KSÍ er til að mynda kerfi þar sem dómarar hafa sinn leiðbeinanda og hefur það kerfi reynst vel. Vissulega var undirbúningstímabilið hjá dómurum með öðru sniði að þessu sinni eins og hjá öllum öðrum. Haldnir voru fjölmargir fjarfundir þar sem farið var yfir atvik og lína lögð til samræmingar. Það hins vegar kemur ekki í staðinn fyrir bestu æfinguna og besta undirbúninginn, sem er að dæma leiki. Dómarar þurfa leikæfingu alveg eins og leikmenn. Fyrir knattspyrnusumarið 2020 var lítið um æfingaleiki eins og við vitum.

Dómarahópurinn samanstendur af mjög metnaðarfullum einstaklingum sem leggja á sig gríðarlega vinnu og gera ekki síður miklar kröfur til sín sjálfir. Við höfum verið að ganga í gegnum ákveðin kynslóðaskipti undanfarin ár og margir hætt sem voru komnir með mikla reynslu. Reynslan er nefnilega það sem er ómetanlegt í knattspyrnudómgæslu. Að gera mistök og læra af þeim er mjög mikilvægt í ferlinu.

Allir landsdómarar og eftirlitsmenn á Íslandi hafa aðgang að Sport Matrix kerfinu, þar sem búið er að flokka niður ákvarðanir dómarans í leiknum. Dómarinn og eftirlitsmaðurinn geta þannig skoðað myndbrot af atvikum í leiknum og lært af þeim.

Við getum treyst því að dómararnir séu heiðarlegir og að þeir dæmi eftir bestu sannfæringu. Stundum er erfitt að meta hvort um leikbrot sé að ræða, en dómarinn þarf engu að síður að taka ákvörðun á mjög skömmum tíma og það gerir hann eftir bestu sannfæringu burtséð frá því hver viðbrögðin við þeirri ákvörðun verða.

Íslensk knattspyrna á sem betur fer marga unga og efnilega dómara sem hafa verið að standa sig mjög vel og eiga án nokkurs vafa eftir að verða betri. Allir dómararnir eru að leggja sig 100% fram og allir vilja þeir verða betri með hverjum leiknum.

Dómarar eru mikilvægir þátttakendur í knattspyrnuíþróttinni sem okkur öllum þykir svo vænt um og eiga það skilið, eins og aðrir þátttakendur leiksins, að þeim sé sýnd virðing.

Með knattspyrnukveðju.
Formaður dómaranefndar KSÍ.
Þóroddur Hjaltalín.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner