Gabríel Snær Hallsson hefur verið í byrjunarliði Breiðabliks í síðustu tveimur leikjum. Hann er fæddur árið 2007 og er uppalinn Bliki. Hann er fjölhæfur leikmaður, hefur verið stillt upp í bæði vinstri og hægri bakverði, en Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, telur að Gabríel muni í framtíðinni spila framar.
Fótbolti.net ræddi við þjálfarann í aðdraganda leiksins gegn Zrijnski Mostar en Breiðablik mætir bosnísku meisturunum klukkan 18:00 í dag í fyrri leik liðanna í 3. umferð forkeppninnar í Evrópudeildinni.
Fótbolti.net ræddi við þjálfarann í aðdraganda leiksins gegn Zrijnski Mostar en Breiðablik mætir bosnísku meisturunum klukkan 18:00 í dag í fyrri leik liðanna í 3. umferð forkeppninnar í Evrópudeildinni.
Lestu um leikinn: Zrinjski Mostar 0 - 1 Breiðablik
„Gabríel Snær er frábær leikmaður, ungur leikmaður sem hefur verið í kringum okkur í nokkur ár. Hann hefur byrjað nokkra leiki á tímabilinu og komið inn á. Hann ætti sennilega að vera búinn að spila meira, er auðvitað í ofboðslega sterku liði og mikilli samkeppni. Hann hefur tekið miklum framförum í hverri einustu æfingaviku, leggur mikla vinnu á sig og í hvert einasta skipti sem hann hefur spilað hefur hann staðið sig vel. Við erum hrikalega ánægðir með hann, klárlega leikmaður sem á framtíðina fyrir sér. Hann er núna að brjótast í gegn sem leikmaður sem getur spilað á hæsta stigi á Íslandi, og vonandi svo lengra í framtíðinni. Hann er að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki, er á frábærum stað," segir Dóri.
Sérðu hannn sem bæði hægri og vinstri bakvörð?
„Ég held að hann verði ekki bakvörður, hann hefur verið að spila inndreginn bakvörð hjá okkur. Hann er að mínu mati bestur meira fyrir miðju vallarins, en þessi staða hentar honum vel - eins og kannski fleiri miðjumönnum hjá okkur sem hafa spilað þessa stöðu. Ég held að hann þróist í að verða framar á vellinum, hann á ennþá eftir að kynna heiminn fyrir sendingar- og skotgetu sem er á hæsta 'leveli'- svona án þess að setja of mikla pressu á hann. Hann á ennþá mikið inni," segir þjálfarinn.
Gabríel Snær er U19 landsliðsmaður sem hefur komið við sögu í fjórtán leikjum með Breiðabliki á tímabilinu. Leikurinn hjá Breiðabliki verður í beinni textalýsingu á Fótbolti.net og verður sýndur á SÝN Sport.
Athugasemdir