Sævar Atli Magnússon átti stórkostlegan leik er Brann vann 2-0 sigur á sænsku bikarmeisturunum í Häcken í fyrri leik liðanna í 3. umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar í Gautaborg í kvöld.
Framherjinn gerði sér lítið fyrir og skoraði bæði mörk Brann í sigrinum.
Fyrra markið gerði hann á 28. mínútu með laglegri afgreiðslu framhjá Etrit Berisha eftir að varnarmaður Häcken sendi slaka sendingu til baka og seinna á 57. mínútu eftir laglegan undirbúning Ulrik Mathisen.
Sævar fagnaði seinna markinu að hætti Diogo Jota, sem lét lífið í hræðilegu bílslysi í síðasta mánuði. Fallegt hjá Sævari sem er mikill stuðningsmaður Liverpool.
Leiknismaðurinn hefur nú skorað þrjú mörk í síðustu tveimur Evrópuleikjum og því fengið viðurnefnið „Euro-Sævar“ hjá norska miðlinum Nettavisen.
Eggert Aron Guðmundsson byrjaði einnig hjá Brann og eins og flestum ætti að vera kunnugt er Freyr Alexandersson þjálfari liðsins. Góð úrslit hjá Brann sem fer með gott veganesti heim til Bergen. Takist liðinu að hafa betur gegn Häcken í einvíginu mun það mæta AEK Larnaca frá Kýpur eða Legía Varsjá frá Póllandi.
Elías Rafn Ólafsson sneri aftur í búrið hjá danska liðinu Midtjylland sem vann Fredrikstad, 3-1, í forkeppni Evrópudeildarinnar. Elías átti mjög góðan leik í markinu og hlýtur hann að halda stöðunni fyrir næsta leik.
Hann hefur fengið fá tækifæri í deildinni, en spilað síðustu tvo Evrópuleiki og vonandi að leikurinn í kvöld hafi verið nóg til að sannfæra þjálfarann.
Guðmundur Þórarinsson var í bakverðinum hjá Noah sem gerði 1-1 jafntefli við Lincoln Red Imps frá Gíbraltar. Góð úrslit fyrir Noah sem spilar síðari leikinn á heimavelli.
Athugasemdir