Man Utd og Dortmund vinna að skiptidíl - Osimhen til Chelsea?
   mið 09. júní 2021 12:50
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Jákvæður haustverkur fyrir Arnar
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
watermark Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: EPA
watermark Brynjar Ingi Bjarnason átti rosalegan glugga.
Brynjar Ingi Bjarnason átti rosalegan glugga.
Mynd: EPA
watermark Mikael Anderson.
Mikael Anderson.
Mynd: Getty Images
Vináttulandsleikir hafa í gegnum ár gullkynslóðar Íslands ekki verið merkilegur tebolli. Liðið hefur skinið skærast þegar sem mest er undir og í gegnum tíðina hafa flestir þeir sem fengu tækifæri í vináttuleikjunum ekki náð að gera tilkall í að brjóta sér leið inn í liðið.

Sú umræða var oftast ríkjandi eftir vináttulandsleiki að þeir þóttu sýna og sanna að staða okkar burðarása væri óhagganleg. Það varð óumdeilt hvernig okkar besta lið væri skipað.

En eftir síðustu þrjá landsleiki Íslands er staðan allt öðruvísi. Flókna Excel skjalið sem Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari þurfti að setja saman fyrir þessa leikjaþrennu skilaði á endanum því að það verður mun erfiðara fyrir hann að velja leikmannahópinn fyrir leikina mikilvægu í haust. Sem er jákvætt.

Ég viðurkenni að þegar siglt var inn í landsleikjagluggann með alla þessa stóru hlekki fjarverandi þá stimplaði ég verkefnið sem nánast tilgangslaust en önnur varð raunin.

Frammistaða liðsins í gegnum leikina var í heild sinni góð. Þó leikurinn gegn Færeyjum hafi verið lélegur, og í raun óboðlega lélegur. Liðið svaraði svo með stæl gegn Póllandi í gær.

Margir leikmenn svöruðu kallinu og styrktu stöðu sína innan landsliðsins, þó að í heildina yfir leikina þrjá hafi vissulega meðlimir gamla bandsins; Aron Einar Gunnarsson og Birkir Bjarnason, verið bestu leikmenn liðsins.

Brynjar Ingi Bjarnason hækkaði verðmiðann á sér rækilega, er á feikilega hraðri uppleið og virðist hafa allt til brunns að bera til að vera landsliðsmaður framtíðarinnar. Hann er án nokkurs vafa saga landsleikjagluggans. Það má þó ekki gleyma Hirti Hermannssyni sem var frábær honum við hlið, fullur sjálftrausts enda ríkjandi Danmerkurmeistari.

Það er nefnilega að opnast pláss í miðverðinum. Ragnar Sigurðsson er sagður íhuga að leggja skóna á hilluna, er félagslaus og hans staða í óvissu, og Kári Árnason verður 39 ára í október.

Markverðirnir stóðu sig vel í glugganum, Alfons Sampsted og Jón Dagur Þorsteinsson eru á uppleið á sínum leikmannaferlum, hinir ungu Ísak Bergmann Jóhannesson og Andri Fannar Baldursson sýndu að þeir eru klárir í stærra hlutverk, Albert Guðmundsson skilaði marki og stoðsendingu í verkefninu og Mikael Anderson minnti rækilega á sig með marki, vinnusemi og góðri frammistöðu. Þá fékk Guðmundur Þórarinsson langþráð tækifæri gegn Póllandi og greip það svo sannarlega með báðum höndum.

Það er ljóst að einhverjir verða ansi svekktir þegar Arnar landsliðsþjálfari opinberar hópinn fyrir leikina í undankeppni HM í haust og einhver bæjarfélög munu láta í sér heyra á Twitter. Nú þarf að vanda valið!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner