Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 09. september 2021 19:30
Þórir Hákonarson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Framtíð hreyfingarinnar í húfi
Þórir Hákonarson
Þórir Hákonarson
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Öllum er ljós sú umræða sem hefur verið um stjórn, leikmenn og starfsmenn KSÍ undanfarnar vikur og verður í því tilliti engin umræða í þessum pistli um þau alvarlegu mál sem augljóslega hafa skaðað okkar hreyfingu í öllu hvernig sem á það er litið.

Það liggur fyrir að boðað hefur til aukaþings stærsta sérsambandsins innan íþróttahreyfingarinnar vegna þeirra hræringa sem orðið hafa innan okkar raða, formaðurinn hefur sagt af sér og öll stjórn KSÍ og því gríðarlega mikilvægt að vel sé á málum haldið næstu misserin til þess að auka tiltrú og traust okkar mikilvægu hreyfingar á næstu misserum. Hvernig á þá að halda á málum?

Næstu skref eru þau að halda starfseminni gangandi með eins eðlilegum hætti og mögulegt er undir þessum kringumstæðum og þá fram að næsta ársþingi sem haldið er í febrúar. Knattspyrnuhreyfingunni ber skylda til að koma sér saman um þá bráðabirgðastjórn sem tekur við í október og varast að þar verði ekki um eiginlega kosningabaráttu hugsanlegra formanns og/eða stjórnar frambjóðenda til lengri tíma að ræða.

Með öðrum orðum verður hreyfingin að koma sér saman um það á næstu vikum að fá til starfs reynslumikið fólk með tengingar í alþjóðasamstarfið, með þekkingu á regluverkinu, með þekkingu á starfsmannahaldi, mótahaldi og fleiru, aðila sem geta nánast gengið inn í starfsemina og þekkja hana af fyrri störfum. Þetta þýðir að að þarna verður að veljast til fólk sem er tilbúið til þess að slökkva þá elda sem tendraðir hafa verið á undanförnum vikum og misserum, reynslumikið fólk sem gengur nokkuð upplýst að störfum, fyrrverandi stjórnarfólk eða fólk sem hefur þegar reynslu úr stjórnarstörfum innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Svo komum við að framhaldinu, þ.e. stjórnarkjör í febrúar.

Í febrúar á næsta ársþingi verður að vanda vil verka og við megum ekki láta utanaðkomandi þrýsting ráða þar för varðandi kjör til þeirra einstaklinga sem eiga að leiða okkar hreyfingu til næstu ára. Þau málefni sem hafa verið áberandi undanfarið verða þar vissulega og eiga að vera til umræðu og við þurfum öll að taka alvarlega. Stjórn þessa hreyfingar verður að sjálfsögðu að taka tillit til þeirrar reynslu sem við öll erum að ganga í gegnum núna, verksvið hvers og eins, upplýsingaskyldu til samfélagsins og ekki síður innan samtakanna og ofar öllu hafa skýra verkaskiptingu á milli stjórnenda sambandsins.

Til þess að koma á betri starfsháttum og að forðast alla kosningabaráttu hugsanlegra formannsframbjóðenda og stjórnarmanna þá teldi ég eðlilegast að formaður KSÍ væri ekki starfsmaður sambandsins heldur hóflega launaður stjórnarformaður með sterka stjórn og sterkan framkvæmdastjóra sem hefði daglega stjórn sambandsins á sínu verksviði. Enginn vafi væri á því hver ætti á hverri stundu að upplýsa stjórn eða koma málum á dagskrá, enginn vafi væri á því hvert væri verksvið hvers og eins.

Framtíð okkar hreyfingar er í húfi, höldum vel á spilum, sýnum auðmýkt og viðurkennum þau mistök sem við sem hreyfing höfum gert og horfum til framtíðar, gerum breytingar en ekki taka ákvarðanir í fljótfærni sem eru illa ígrundaðar og teknar í ljósi umfjöllunar hverju sinni, hversu erfið sem sú umfjöllun er.

Fráfarandi formanni KSÍ, Guðna Bergssyni, ber ég bestu þakkir fyrir hans störf sem og öllum stjórnarmönnum sem nú hverfa frá störfum. Við þurfum að horfa á það sem miður hefur farið, öll, og megum ekki gleyma því að íþróttin okkar er skemmtun og við verðum að ná gleðinni inn til okkar aftur í tengslum við frábæran árangur okkar landsliða undanfarin áratug og árangur okkar allra í íslenskri knattspyrnu. Orðspor okkar er í húfi.

Með góðri knattspyrnukveðju
Þórir Hákonarson, áhugamaður um íslenska knattspyrnu
Athugasemdir
banner
banner
banner