
Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari mætti súr en stoltur á blaðamannafund eftir leik og svaraði spurningum franskra blaðamanna sem og Fótbolti.net.
Fyrsta spurning Frakka var að sjálfsögðu um umdeilda jöfnunarmark Íslands sem var dæmt af.
„Þetta var smá peysutog, soft. Varnarmaðurinn er gríðarlega sterkbyggður og verður bara að standa þetta af sér. Þetta var kannski réttur dómur. Ég set meira spurningamerki við að dómarinn hafi þurft að fara og skoða þetta. Ef þú vilt sjá eitthvað í svona þá geturu alltaf séð eitthvað."
Lestu um leikinn: Frakkland 2 - 1 Ísland
Næsta spurning blaðamanna hér í París var hvort Ísland geti eftir þessa frammistöðu unnið í Reykjavík gegn Frökkum í október.
„Ég er mjög bjartsýnn að upplagi, tel mig geta unnið Rory Mcilroy í golfi. Þetta var grín."
Frakkarnir hlógu ekki, skildu eflaust ekki brandarann eða horfa ekki á golf.
„Við getum unnið. Það fallega við fótbolta er að ótrúlegir hlutir geta gerst. Það myndi t.d. ekki gerast í körfubolta".
Næst var spurt út í pressu íslenska liðsins kringum markið sem Frakkar gáfu klaufalega og aggressívan leik miðjumanna í dag.
„Heimsklassa leikmenn eins og Frakkar hafa í öllum stöðum eru enn betri ef þeir fá tíma. Við verðum að vera aggressívir og reyna lágmarka tímann sem þeir hafa á boltann. Varðandi markið þá gerðu okkar fremsu menn vel og að mínu mati var þetta bara gott mark sem við uppskárum af því menn eru duglegir."
Hvort er Arnar svekktur eða stoltur 10 mínútum eftir leik?
„Blendnar tilfinningar. Mjög stoltur en svakalega svekktur. Þetta gæti svolítið verið “the one who got away” . Ég er mjög stoltur af liðinu en strákarnir eru rosalega svekktir inn í klefa."
Áður en leikur Íslands hófst var ljóst að ísland fékk hentug úrslit í hinum leik riðilsins. Var þetta eitthvað sem mótiveraði liðið eða truflaði? Hefði það ekki verið stórt skref að ná í stig hérna í dag sérstaklega miðað við úrslitin í hinum leiknum?
„Það gaf strákunum bara auka boost. Mótiveraði þá enn meir að ná í úrslit í dag. En þetta var frábær gluggi fyrir landsliðið. bónus leikur er orð sem var mikið notað í þessum glugga. Þetta var bara bónus dagur. Frábær frammistaða í dag á móti gríðalegra sterkum andstæðing og frábær úrslit fyrir okkur í hinum leik riðilsins.
„Við þurfum núna að bera höfuðið hátt og fylla stúkuna á heimsleikunum í október. Markmiðið er að komast að lágmarki umspil."