Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 09. október 2019 11:19
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Coleen Rooney ásakar Rebekah Vardy um að leka sögum til Sun
Coleen Rooney með eiginmanni sínum og fjórum drengjum.
Coleen Rooney með eiginmanni sínum og fjórum drengjum.
Mynd: Getty Images
Jamie og Rebekah.
Jamie og Rebekah.
Mynd: Getty Images
Coleen Rooney, eiginkona Wayne Rooney, ásakar eiginkonu Jamie Vardy, Rebekah Vardy, um að selja falsaðar sögur til breska götublaðsins The Sun.

Rooney spilar með DC United í MLS-deildinni, en er á leið til Derby County í Championship-deildinni á Englandi eftir áramót. Vardy spilar með Leicester. Þeir eru fyrrum samherjar í enska landsliðinu.

Coleen birti tilkynningu á samfélagsmiðlum í morgun. Rebekah neitar allri sök.

„Í nokkur ár núna hefur einhver sem ég treysti til að fylgja persónulega Instagram-reikningi mínum veitt The Sun upplýsingar um persónulegar færslur mínar og sögur."

„Svo margar upplýsingar hafa verið gefnar um mig, vini mína og fjölskyldu - allt án míns leyfis eða vitundar. Eftir að hafa verið í langan tíma að reyna að finna út hver þetta hefði getað verið, þá fékk ég grun um það."

„Til þess að reyna að sanna grun minn, þá fékk ég hugmynd. Ég kom í veg fyrir að allir nema einn aðgangur gætu séð sögur mínar á Instagram. (Það fólk sem fylgir mér á persónulega Instagram-reikningi mínum hlýtur að hafa velt fyrir sér hvers vegna ég hef ekki haft neinar sögur þar um nokkra hríð)."

„Undanfarna fimm mánuði hef ég birt sögur sem eru ekki sannar til þess að sjá hvort þeir kæmust í The Sun. Og vitiði hvað, þær gerðu það," sagði Coleen og bætti við að hún vissi núna hver væri að verki.

„Ég vistaði og tók skjáskot af upprunalegu sögunum. Það hefur bara einn reikningur séð þær. Það er reikningur... Rebekah Vardy."

Rebekah svaraði með sinni eigin yfirlýsingu.

„Eins og ég sagði við þig í símann, þá vildi ég að þú hefðir hringt í mig ef þú héldir þetta. Ég tala aldrei um þig við neina blaðamenn og fjölmargir blaðamenn geta kvittað undir það," skrifar Rebekah.

„Ef þú héldir að þetta væri að gerast þá hefðirðu getað sagt mér og ég hefði getað breytt aðgangsorði mínu til þess að sjá hvort þetta myndi hætta. Fjölmargir aðilar hafa haft aðgang að Instagram-reikningi mínum. Í þessari viku komst ég að því að ég væri að fylgja fólki sem ég þekki ekki, fólki sem ég hafði ekki fylgt sjálf."

„Ég þarf ekki peninginn, hvað græði ég á því að selja sögur um þig? Ég kunni mjög vel við þig Coleen og ég er svo svekkt að þú hafir ákveðið að gera þetta, sérstaklega þegar ég er komin langt á leið."

„Mér finnst það ógeðslegt að ég þurfi að neita þessu. Þú hefðir getað hringt í mig þegar þetta gerðist fyrst."

Rebekah er ólétt af sínu fimmta barni, sínu öðru með fótboltamanninum Jamie Vardy.

Sögurnar sem Vardy á að hafa selt til The Sun eru meðal annars um að Coleen sé að snúa aftur í sjónvarp og að það hafi lekið í nýju húsi Rooney-hjóna í Cheshire vegna stormsins Lorenzo.


Athugasemdir
banner
banner
banner