Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 10. janúar 2020 15:30
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Kjúklingasalat úr kjúklingaskít
Alexander Freyr Tamimi
Alexander Freyr Tamimi
Greinarhöfundur tekur viðtal við Mike Riley fyrir Fótbolta.net árið 2009.
Greinarhöfundur tekur viðtal við Mike Riley fyrir Fótbolta.net árið 2009.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Á sama tíma og Lilja klæðist Víkingsbúningnum og baðar sig í ljóma bikarmeistaranna á Laugardalsvelli, er hún markvisst að bregða fæti fyrir þann fjölmiðil sem stendur langfremst í allri knattspyrnuumfjöllun á Íslandi.''
,,Á sama tíma og Lilja klæðist Víkingsbúningnum og baðar sig í ljóma bikarmeistaranna á Laugardalsvelli, er hún markvisst að bregða fæti fyrir þann fjölmiðil sem stendur langfremst í allri knattspyrnuumfjöllun á Íslandi.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Fótbolti.net er ótrúlega vel smurð vél með fjöldan allan af tannhjólum – í raun er umfang miðilsins hreint út sagt með ólíkindum miðað við hversu „lítill“ hann í raun er.''
,,Fótbolti.net er ótrúlega vel smurð vél með fjöldan allan af tannhjólum – í raun er umfang miðilsins hreint út sagt með ólíkindum miðað við hversu „lítill“ hann í raun er.''
Mynd: Eyþór Árnason
Mynd: Fótbolti.net
Ég er svo lánsamur að hafa fengið að kynnast starfsemi Fótbolta.net á bakvið tjöldin í þau ár sem ég skrifaði fyrir þennan frábæra vef. Ég held að allir sem þetta lesa geti verið sammála því að Fótbolti.net gegnir algeru lykilhlutverki í knattspyrnuumfjöllun á Íslandi – bæði þegar kemur að íslenska boltanum og þeim erlenda.

Fótbolti.net er samansafn einstaklinga sem lifa og brenna fyrir fótbolta og leggja ansi mikið á sig til að svala þeirri ástríðu. Á sumrin eyða tugir manna og kvenna um allt land kvöldum og helgum á fótboltavellinum til að færa lesendum umfjallanir og myndir úr leikjum í öllum deildum.

Á veturna standa fjölmargir einstaklingar vaktina til að færa okkur fréttir og úrslit utan úr heimi um leið og þau berast. Fótbolti.net er ótrúlega vel smurð vél með fjöldan allan af tannhjólum – í raun er umfang miðilsins hreint út sagt með ólíkindum miðað við hversu „lítill“ hann í raun er.

Eina orðið yfir starfsemi Fótbolta.net er þrekvirki. Tugir einstaklinga sem róa í sömu átt með ástríðuna að vopni. Enginn er að þessu fyrir peninga - þrátt fyrir að Fótbolti.net hafi alltaf komið ótrúlega vel við sitt starfsfólk og geri sitt besta til að umbuna þeim sem koma að umfjöllun vefsins, þá hefur þessi miðill alltaf verið rekinn á afar takmörkuðum fjármunum. Einu tekjurnar eru auglýsingatekjur og þær er einfaldlega erfitt að sækja og þær duga einungis upp að vissu marki.

Flestir litlir vefmiðlar eru með handfylli af starfsmönnum og geta rekið sig án gífurlegs kostnaðar. Fótbolti.net þarf hins vegar að vera með starfsemi um allt land og fylgja karla- og kvennalandsliðum okkar erlendis í verkefni.

Ég vil bara að fólk átti sig á því hversu ómögulegt þetta verkefni er – sem ég skil að er erfitt, því einhvern veginn hefur Fótbolta.net tekist að láta þetta ganga upp og við fáum toppþjónustu beint í æð.

Nú stendur Fótbolti.net hins vegar fyrir nýrri og erfiðri áskorun. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra vill nefnilega styrkja alla samkeppnisaðilana á fjölmiðlamarkaði með beinhörðum peningum. Stærri og stöndugri fjölmiðlar munu fá milljónir, ef ekki tugi milljóna, í styrki á ári fyrir sína starfsemi en Fótbolti.net, einn mest lesni miðill landsins, fær hins vegar ekki krónu.

Á sama tíma og Lilja klæðist Víkingsbúningnum og baðar sig í ljóma bikarmeistaranna á Laugardalsvelli, er hún markvisst að bregða fæti fyrir þann fjölmiðil sem stendur langfremst í allri knattspyrnuumfjöllun á Íslandi. Miðil sem gegnir gríðarlega stóru hlutverki í að halda heiðri íslenskrar knattspyrnu á lofti. Þetta er auðvitað þyngra en tárum taki. Fáránlegt. Út í hött. Gjörsamlega glórulaust. En svona er staðan.

Ég er ekki að segja að ríkið eigi að styrkja Fótbolta.net (og það hafa forsvarsmenn Fótbolta.net aldrei sagt). Að mínu mati á ríkið ekki að styrkja einn einasta fjölmiðil frekar en önnur einkarekin fyrirtæki. Hins vegar er það klárt mál að ef ríkið ætlar sér að styrkja fjölmiðla á annað borð, þá er fáránlegt að útiloka einn stærsta fjölmiðil landsins (í lesendatölum, sannarlega ekki umfangi). Þetta veikir augljóslega stöðu Fótbolta.net, sem þarf nú þegar að keppa við ríkisfjölmiðil og aðra fjölmiðla í eigu milljarðamæringa sem virðast mega tapa ótakmörkuðum fjárhæðum árlega.

En þegar ríkið reynir að bregða fyrir þig fæti, þá er kominn tími til að reyna á hinn frjálsa markað. Það er nákvæmlega það sem Fótbolti.net ætlar núna að gera með nýstofnaðri stuðningssveit sinni. Nú fá lesendur tækifæri til að styrkja starfsemi þessa frábæra miðils – og ég get lofað því að styrkirnir munu bæta þjónustuna enn frekar og hjálpa Fótbolta.net upp á allt annað og hærra stig. Þetta kallar maður að snúa vörn í sókn, að búa til kjúklingasalat úr kjúklingaskít eins og frægur maður sagði.

Að mínu mati er þetta algjörlega augljóst. Ef þú ert dyggur lesandi Fótbolta.net sem líkar vel við þjónustuna og ert aflögufær um einhverja upphæð á mánuði, þá ertu að taka hárrétta ákvörðun með því að ganga til liðs við stuðningssveitina. Margt smátt gerir eitt stórt og framlag okkar lesenda mun hjálpa Fótbolta.net að standast áhlaup menntamálaráðherra og stuðla að enn betri vef.

Við hljótum að vera sammála því að Fótbolti.net er einhvers virði fyrir okkur – ef vefurinn myndi loka í dag myndum við virkilega sjá eftir honum. Þá hlýtur bara að vera sanngjarnt og eðlilegt að greiða fyrir þá þjónustu, alveg eins og við greiðum fyrir Netflix, Spotify og svo framvegis.

Munurinn er vissulega sá að þetta er valkvætt – við getum sleppt því að greiða og haldið áfram að nýta okkur þjónustuna. En hver veit hversu lengi það verður tilfellið? Hvenær verður komið að þolmörkunum?

Það er líka svo geggjað að vita að hver króna sem við setjum í Fótbolta.net mun fara í að gera vefinn betri – hér er enginn að reyna að verða ríkur, þetta snýst allt um að halda áfram rekstri bestu fótboltasíðu á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.

Þess vegna ætla ég að ganga til liðs við stuðningssveit Fótbolta.net. Ég vona innilega að þú gerir það sama.
Athugasemdir
banner
banner