Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, vill halda Samönthu Smith hjá félaginu á næsta tímabili.
Frá þessu sagði hann í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net á dögunum en það er óvíst hvað leikmaðurinn ætlar að gera.
Frá þessu sagði hann í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net á dögunum en það er óvíst hvað leikmaðurinn ætlar að gera.
„Við viljum fá hana fyrir næsta tímabil. Samtölin eru í gangi. Ég veit að það er áhugi utan Íslands. Núna er tímabilið búið og hún þarf að hugsa sig um. Við erum vongóð en ef hún fer annað, þá óska ég henni alls hins besta. Ég krossa putta að við getum haldið henni hérna," sagði Nik.
„Áhrif á hennar á liðið voru mögnuð. Hún er líka frábær manneskja sem lyfti liðinu enn frekar upp utan vallar."
Samantha var algjörlega stórkostleg frá því hún gekk í raðir Breiðabliks frá FHL á láni í sumarglugganum. Hún hjálpaði Breiðabliki að landa Íslandsmeistaratitlinum og FHL að vinna Lengjudeildina. Hún var í liði ársins í báðum deildum og leikmaður ársins í Lengjudeildinni.
Nik sagði í viðtalinu að hann hafi ekki vitað hvort félögum í Bestu deildinni hafi boðist að fá Samönthu í sitt lið fyrir tímabilið en Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL, er afar góður í því að finna frábæra erlenda leikmenn.
„Ég hef heyrt að eitt eða tvö félög í Bestu deildinni hafi skoðað það að fá hana í sumar. Ég held að hún hefði bara farið í annað félag til að berjast um eitthvað. Hún naut lífsins fyrir austan og það var enginn tilgangur í því að fara annað til að spila bara. Við vorum í Meistaradeildinni, vorum í bikarúrslitum og að berjast um Íslandsmeistaratitil. Ég held að hún hafi séð það sem tækifæri til að verða tvöfaldur meistari og hún gerði það. Ég er ekki viss um að það hafi gerst áður í kvennaboltanum," sagði Nik en allt viðtalið við hann má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir