Böðvar Böðvarsson gekk til liðs við FH frá Trelleborg á dögunum. Þessi 28 ára gamli leikmaður lék með FH til ársins 2018 áður en hann hélt út í atvinnumennsku.
Hann spilar venjulega sem vinstri bakvörður en er tilbúinn að leysa þá stöðu sem hann er beðinn um að leysa.
„Persónulega finnst mér best fyrir mig að spila vinstri bakvörð. Við erum það heppnir að vera bæði með Harald (Einar Ásgrímsson) og Óla (Guðmundsson) sem geta spilað þá stöðu, báðir frábærir á seinasta tímabili þannig ég á von á því að ef við spilum 3-4-3 get ég verið einn af miðvörðunum, í 4-3-3 gæti ég komið inn í sexuna," sagði Böddi.
Böddi hefur trú á því að að FH getur orðið Íslandsmeistari næsta sumar.
„Íslenska deildin er þannig núna að þú getur náð því að verða Íslandsmeistari. Það eru sex lið sem geta það farandi inn í tímabilið þó að Víkingur er með bestu hendina í það núna, þeir verða liðið til að vinna."
„Ég held það sé fyrsta markmiðið hjá FH að koma klúbbnum í Evrópukeppni upp á það að styrkja liðið fyrir næsta tímabil, fá pening inn og geta farið að saxa að titlinum. Ég held að við getum orðið Íslandsmeistarar en við erum ekki 'favourites' eins og staðan er núna, það eru Víkingar, en það getur allt gerst í sumar."
Hann telur að liðið þurfi að bæta við sig hreinræktuðum framherja.
„Við þurfum framherja, Úlfur er úti í háskóla og verður ekki með okkur allt tímabilið. Kjartan er hættur þannig ég held við þurfum framherja. Við erum með góða sóknarmenn en eru ekki þessar hreinræktuðu níur sem við þurfum," sagði Böddi.
„Annars hafa ungu leikmennirnir komið mér gífurlega á óvart hingað til á æfingum, ég efa að ég hafi verið svona góður þegar ég byrjaði að æfa með meistaraflokki, maður á eftir að kynnast þeim betur."