Allt bendir til þess að Georgíumaðurinn Khvicha Kvaratskhelia gangi opinberlega til liðs við Paris Saint-Germain í næstu viku.
Kvaratskhelia er gríðarlega öflugur kantmaður sem hefur verið lykilmaður í liði Napoli frá komu sinni til félagsins sumarið 2022.
Hann vann Ítalíumeistaratitilinn á sínu fyrsta tímabili hjá félaginu en vill núna róa á önnur mið. Talið er að hann sé búinn að gefa munnlegt samþykki fyrir fimm ára samningi hjá PSG, þar sem hann mun fá fjórum til fimm sinnum hærri laun heldur en hjá Napoli.
PSG á einungis eftir að ná endanlegu samkomulagi við Napoli um kaupverð til að ganga frá félagaskiptunum á Kvaratskhelia, sem er 23 ára gamall.
„Ég reyndi að sannfæra Khvicha um að vera áfram en hann vill það ekki. Ég get ekki haldið honum ef hann vill ekki vera hérna. Ég vil halda honum en get ekki hlekkjað hann við Napoli," sagði Antonio Conte þjálfari Napoli meðal annars í dag.
Napoli verður þá búið að missa bæði Victor Osimhen og Kvaratskhelia á skömmum tíma, en þeir áttu lykilþátt í Ítalíumeistaratitlinum 2023.
Annars er það að frétta úr herbúðum Napoli að danski miðjumaðurinn Philip Billing er búinn að skrifa undir samning við félagið sem gildir út tímabilið. Napoli fær hann á láni frá Bournemouth með kaupmöguleika næsta sumar, sem hljóðar upp á rúmlega 10 milljónir evra.
Athugasemdir