lau 11. júní 2022 16:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Öflugt teymi í kringum liðið - Þjálfararnir þurfa ekki að vaka lengi
Icelandair
Lúðvík og Ólafur Ingi.
Lúðvík og Ólafur Ingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásmundur Haraldsson.
Ásmundur Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður góð umgjörð í kringum íslenska landsliðið á Evrópumótinu í Englandi.

Á fréttamannafundi í dag var sagt frá því að 26 starfsmenn verði í kringum liðið á mótinu.

„Við erum með kokka, leikgreinendur, öryggisstjóra og alls konar," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi.

„Það er margt sem tengist því á að vera á EM. Stærð mótsins er það mikil að það eru alls konar hlutir sem verða að vera á tæru þannig að við uppfyllum öll skilyrði sem UEFA setur. Það þarf allt að vera á hreinu svo við stöndumst allar kröfur sem eru gerðar á mótinu."

Ásmundur Haraldsson, aðstoðarþjálfari, tók þá til máls. „Við í innsta hring - þjálfarateymið - fáum stuðning frá leikgreinendum sem hafa verið að fylgja mótherjunum eftir allt síðasta ár. Þeir fylgja hverju liði fyrir sig, koma inn og hjálpa til með þær greiningar og hvernig við nálgumst þau verkefni," sagði Ásmundur.

Hann sagði frá því að leikgreinendur liðsins væru Davíð Snorri Jónasson, Lúðvík Gunnarsson og Ólafur Ingi Skúlason, en þeir eru allir að þjálfa yngri landslið Íslands.

Grétar Rafn Steinsson, fyrrum landsliðsmaður, verður einnig í kringum liðið.

„Grétar er partur af greiningarhlutanum. Við erum líka með Tom Goodall sem er leikgreinandi hjá A-landsliði karla líka; hann er að leikgreina okkur, aðstoða okkur í leikgreiningu sem snýr beint að okkur. Við erum með gott teymi og þetta einfaldar líf okkar sem þjálfara. Við erum ekki að vaka langt fram eftir nóttu að klára að klippa," sagði Þorsteinn í viðtali við Fótbolta.net sem birtist á eftir.

„Við getum gert hlutina markvissari og þetta er partur í því að koma okkur nær nútímanum. Á Íslandi er það enn þannig að þjálfari gerir allt í félagsliðaboltanum. Vonandi skilar þetta í því að við þjálfararnir getum verið enn ferskari og tilbúnir með allt."

Gott að hafa Ása með
Ásmundur er að fara á sitt annað stórmót sem aðstoðarþjálfari liðsins og hefur því meiri reynslu af stórmótum en aðalþjálfarinn. Þorsteinn segir að það sé mjög gott að hafa Ásmund með sér í þessu verkefni.

„Hann er góður þjálfari og með gott 'input' í þetta. Það skiptir líka máli fyrir mig að hann sé með reynslu af því að fara á stórmót og þessu landsliðsumhverfi sem ég þekkti ekki neitt," sagði Þorsteinn.

„Það var partur af því að ég vildi fá hann inn, að hann hafði þessa reynslu."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner