Breiðablik vann góðan 1-0 sigur á Shamrock Rovers á Írlandi í kvöld í undankeppni riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Damir Muminovic skoraði eina markið með stórkostlegu skoti beint úr aukaspyrnu.
Lestu um leikinn: Shamrock Rovers 0 - 1 Breiðablik
Leikurinn var sýndur á írsku sjónvarpsstöðinni RTE en Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Blika var í viðtali á stöðinni eftir leikinn.
„Við lögðum grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik, við framkvæmdum planið eins vel og við gátum, fyrri hálfleikur var frábær en í seinni hálfleik voru þeir mun sterkari aðilinn. Þeir voru meira með boltann og stjórnuðu leiknum án þess þó að skapa sér hættuleg færi," sagði Óskar.
Hann var gríðarlega ánægður að liðið hafi haldið út þar sem þeir voru augljóslega orðnir ansi þreyttir undir lokin.
„Það er bara kominn hálfleikur, Shamrock er stærra lið, hafa meiri reynslu í Evrópu og meira á milli handanna. Þeir fóru inn í þetta einvígi sem líklegri sigurvegari en við verðum að sjá til þess að við spilum allar 90 mínúturnar eins og við spiluðum fyrri hálfleikinn í dag," sagði Óskar.
Liðin mætast á Kópavogsvelli í seinni leik liðanna eftir slétta viku.