Sagt var frá því í síðustu viku að bandaríski varnarmaðurinn Sean Vinberg væri að æfa með HK. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net fékk hann tilboð úr Kópavoginum en hafnaði því.
Hann er núna að æfa með Þór Akureyri sem leikur í Lengjudeildinni.
Tenging Vinberg við Ísland er að hann lék með Elias Tamburini á sínum tíma en finnski bakvörðurinn Tamburini lék með Grindavík og ÍA hér á landi á árunum 2018-2021.
Vinberg og Tamburini léku saman með Phönix Lübeck í Þýskalandi fyrri hluta árs 2022. Vinberg, sem er 29 ára, er í leit að liði til að spila með á komandi tímabili.
HK var með miðvörðinn Ahmad Faqa á láni frá sænska félaginu AIK á síðasta tímabili en hefur ekki fengið inn mann í hans stað.
Á ferli sínum hefur Vinberg leikið í Bandaríkjunum, langlengst í Þýskalandi og hálft ár í Mongólíu. Það er spurning hvort að hann gangi í raðir Þórs sem er spáð góðu gengi í sumar.
Athugasemdir