Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 12. mars 2015 09:00
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Enski boltinn - Sá besti í heimi?
Alexander Freyr Tamimi
PSG fór áfram í Meistaradeildinni á kostnað Chelsea.
PSG fór áfram í Meistaradeildinni á kostnað Chelsea.
Mynd: Getty Images
Englandsmeistararnir eru í vondri stöðu.
Englandsmeistararnir eru í vondri stöðu.
Mynd: Getty Images
Liverpool komst ekki upp úr riðli sínum.
Liverpool komst ekki upp úr riðli sínum.
Mynd: Getty Images
Þeir voru ansi margir knattspyrnuáhugamennirnir og sparkspekingarnir sem tættu í sig enska knattspyrnu eftir að Chelsea datt úr leik gegn Paris Saint-Germain í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöldi.

Þó það sé vissulega of snemmt að fullyrða nokkurn skapaðan hlut verður að teljast frekar líklegt að ekki eitt einasta enskt lið muni tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í ár. Slíkt verður að teljast mikið áfall fyrir knattspyrnuna þar í landi.

Liverpool datt úr leik í riðlakeppninni og Chelsea út í gærkvöldi. Þá eru Arsenal og Manchester City bæði í mjög vondri stöðu fyrir útileiki sína gegn Monaco og Barcelona.

Fullyrðingin sem varpað er fram er einföld: Drottnun enskrar knattspyrnu er liðin tíð. Hún hefur dregist verulega aftur úr öðrum sterkum deildum í Evrópu og er ekki lengur besta deild í heimi.

Það er kannski ekki skrítið að einhverjir haldi þessu fram og líklega er þetta rétt. Árangur enskra liða í Meistaradeildinni hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarin ár þó nokkrar undantekningar hafi vissulega litið dagsins ljós. Í gærkvöldi gátu menn bent á það að lið sem er að slátra ensku úrvalsdeildinni hafi ekki einu sinni getað komist áfram manni fleiri gegn liði frá Frakklandi.

Ef ensk knattspyrna er í lægð, þá verður maður að spyrja sig af hverju. Mikið hefur verið rætt um að unglingastarfið á Englandi hafi farið versnandi og sé alls ekki nógu gott. Bent hefur verið á landsliðið til að sýna að gæði enskra leikmanna fari minnkandi. England hefur svo sannarlega ekki verið meðal bestu landsliða heims í ansi langan tíma.

Það vantar hins vegar ekki stjörnuleikmennina á Englandi. Þar spila ennþá margir af bestu leikmönnum heims. Diego Costa, Sergio Aguero, David Silva, Angel Di Maria og fleiri eru allt leikmenn sem myndu teljast meðal þeirra bestu. Þó virðist sem eitthvað sé að.

Margir eru þó á því að þó enska úrvalsdeildin hafi kannski ekki lengur þá yfirburði þegar kemur að gæðum, þá sé hún þrátt fyrir það enn sú skemmtilegasta. Það vantar svo sannarlega ekki frábæru leikina, spennuna, dramatíkina og fallegu mörkin. Fæstir myndu sjálfsagt halda því fram að enski boltinn sé orðinn leiðinlegur.

Þess vegna er áhugavert að velta eftirfarandi fyrir sér: Er raunverulegt vandamál til staðar? Hvert er þá vandamálið? Mun ensk knattspyrna halda áfram að dragast aftur úr?

Ekki veit ég svörin við þessum spurningum, en eitt er ég þó viss um. Það er fátt betra á góðri helgi heldur en að hlamma sér í sófann eða kíkja á barinn og horfa á leik í enska boltanum. Ég sé það ekki breytast í bráð.
Athugasemdir
banner
banner