Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   mán 12. maí 2025 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Beckham segir andstæðingi að sýna virðingu
Beckham hér lengst til hægri. Með honum á myndinni er meðal annars Lionel Messi.
Beckham hér lengst til hægri. Með honum á myndinni er meðal annars Lionel Messi.
Mynd: EPA
Inter Miami, félag sem er í eigu Davids Beckham, tapaði stórt 4-1 gegn Minnesota United á heimavelli í MLS-deildinni á dögunum. Þetta er þyngsta tapið síðan Lionel Messi gekk til liðs við félagið í júlí árið 2023. Messi skoraði eina mark Miami í seinni hálfleik, en liðið hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum.

Eftir leikinn birti Minnesota United mynd á Instagram með textanum „Pink Phony Club“, skírskotun til bleiku búninga Miami og lagsins Pink Pony Club, en hægt er að þýða þetta sem „Bleika loddarafélagið". Auk þess birtu þeir mynd af stöðu deildarinnar sem sýndi að Minnesota hafði farið upp fyrir Miami.

Beckham svaraði færslunni og hvatti til virðingar og kurteisi með athugasemdinni: „Sýnið svolitla virðingu, verið fáguð í sigri.“ Ekki sáttur með þetta enska goðsögnin.

Minnesota hélt áfram með færslu sem sýndi borða frá leiknum með textanum „History over hype, culture over cash (saga yfir hæp, menning fram yfir peninga),“ með orðunum „hype and cash“ lituð bleik. Beckham svaraði aftur og skrifaði: „Virðing fram yfir allt.“

Inter Miami hefur átt erfitt uppdráttar á þessu tímabili en er þó með leikmenn á borð við Messi, Luis Suárez, Sergio Busquets og Jordi Alba. Þeir sitja nú í fjórða sæti MLS Austurdeildarinnar.
Athugasemdir