Birkir Heimisson var maður leiksins þegar Valur vann 6-1 sigur á ÍA á laugardagksvöldið. Birkir lagði upp tvö mörk í leiknum. Hann lék með uppeldisfélaginu Þór í Lengjudeildinni í fyrra en var keyptur aftur í Val síðasta haust og hefur verið í stóru hlutverki það sem af er tímabili.
Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, var spurður út í Birki í viðtali eftir leikinn.
Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, var spurður út í Birki í viðtali eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Valur 6 - 1 ÍA
„Mér finnst Birkir alltaf smá vanmetinn, núna er hann með þjálfara sem hefur trú á honum. Hann er að bæta sig á hverjum degi og hefur ennþá möguleika á því að verða enn betri. Ég er búinn að vera mjög ánægður með Birki," sagði Túfa í viðtali eftir leik.
Toppmaður þótt hann sé Þórsari
Rætt var um Birki í Innkastinu þar sem þeir Almarr Ormarsson og Baldvin Már Borgarsson voru gestir Elvars Geirs.
„Mér fannst áhugaverð breyting að hætta að nota Birki Heimis í vinstri bakverði og leysa þaðan inn á miðju, hann var notaður í hægri bakverði í þessum leik. Túfa lét hann leysa inn í fremri stöðurnar á miðjunni. Aron Jó og Marius Lundemo héldu sig dýpra á vellinum og voru að stýra spilinu þar, Birkir var farinn að leysa upp í kringum Patrick Pedersen fremst á vellinum og stundum hélt hann breiddinni úti hægra megin og þá fór Jónatan af kantinum og inn á völlinn. Það var smá breyting á leikskipulagi Vals frá því hvernig þetta hafði verið fyrstu fimm umferðirnar," segir Baldvin.
„Ég er ánægður fyrir hönd Birkis, þó að hann sé Þórsari þá er hann toppmaður og góður í fótbolta. Ég spilaði með honum í Val. Mér fannst pínu synd þegar hann ákvað að fara norður í fyrra, þó að ég fagni því líka á sama tíma að menn fari í uppeldisfélagið og reyni að hjálpa því, en þá verða menn líka að koma liðinu upp! Ég fagna því að fá Birki í Bestu deildina aftur og vona að hann finni þann takt sem hann getur sýnt. Hann er mjög góður leikmaður, ekta íslenskur miðjumaður þó að hann sé að spila bakvörð núna. Hann er ósérhlífinn, lætur finna fyrir sér, er duglegur og er alveg tilbúinn að fara í tæklingar," segir KA maðurinn Almarr.
„Hann er með frábæra löpp, góður sendingamaður," bætti Baldvin við.
Birkir er 25 ára miðjumaður sem kom fyrst í Val fyrir tímabilið 2020. Hann kom þá aftur til Íslands eftir að hafa verið í þrjú ár hjá Heerenveen í Hollandi.
Athugasemdir