Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   þri 12. september 2023 19:01
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Annar útisigur í röð hjá Þrótti
Kvenaboltinn
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

FH 2 - 3 Þróttur R.
0-1 Katla Tryggvadóttir ('36)
0-2 Freyja Karín Þorvarðardóttir ('39)
1-2 Alma Mathiesen ('48)
1-3 Katla Tryggvadóttir ('52 , víti)
2-3 Shaina Faiena Ashouri ('88)


Lestu um leikinn: FH 2 -  3 Þróttur R.

Þróttur R. fer gríðarlega vel af stað í úrslitakeppni Bestu deildar kvenna og vann góðan sigur á útivelli gegn FH í dag.

Þróttur byrjaði betur þar sem Katla Tryggvadóttir komst nálægt því að skora snemma leiks, áður en hún setti boltann svo í netið á 36. mínútu með bylmingsskoti utan teigs. Boltinn hafnaði í stönginni en skoppaði af bakinu á Aldísi Guðlaugsdóttur markverði og þaðan í netið. Afar óheppilegt fyrir Aldísi sem fær eflaust skráð sjálfsmark á sig.

Skömmu síðar gerðist Aldís svo sek um skelfileg mistök þar sem hún missti auðveldan bolta frá sér og beint til Freyju Karínar Þorvarðardóttur sem renndi boltanum í opið markið.

Hafnfirðingar reyndu að svara fyrir sig og töldu sig hafa skorað eftir hornspyrnu, en dómarinn sá boltann ekki fara yfir marklínuna og því var staðan 0-2 í hálfleik.

Það var gerð þreföld skipting í liði FH í hálfleik og tók það Hörpu Helgadóttur aðeins tvær mínútur að láta til sín taka með stoðsendingu. Harpa átti góða fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Alma Mathiesen var mætt og skoraði með skalla. 

Hún minnkaði muninn þar með niður í eitt mark og komust heimakonur nálægt því að jafna skömmu síðar, en tilraun Colleen Kennedy endaði í markslánni.

Þróttur refsaði fyrir þetta með öðru marki frá Kötlu en í þetta sinn skoraði hún af vítapunktinum eftir að Aldís hafði gerst brotleg innan vítateigs.

Staðan var því orðin 1-3 eftir 52 mínútur og tókst hvorugu liði að bæta marki við leikinn fyrr en undir lokin. Þar var Shaina Ashouri á ferðinni sem skoraði svakalegt mark eftir laglegt einstaklingsframtak þar sem hún kom inn af vinstri kanti og klíndi boltanum í samskeytin fjær.

Það var sex mínútum bætt við í uppbótartíma en FH-ingum tókst ekki að nýta þær. Niðurstaðan sanngjarn sigur Þróttar sem er á góðu skriði eftir frábæran 0-4 sigur á útivelli gegn stórveldi Blika í síðasta leik.

Þróttur deilir öðru sæti efri hluta Bestu deildarinnar með Blikum eftir sigurinn í dag, en Blikar og Stjarnan eiga leik til góða og geta komið sér uppfyrir Þrótt.


Athugasemdir
banner
banner