ÍA steinlá 6-1 gegn Val í Bestu deildinni í kvöld. Eftir frábært tímabil í fyrra hefur liðið aðeins safnað sex stigum í upphafi móts. Henry Birgir Gunnarsson og Úlfur Arnar Jökulsson ræddu frammistöðu liðsins í Subway tilþrifunum á Stöð 2 Sport eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Valur 6 - 1 ÍA
„Þeir voru gjörsamlega teknir í bakaríið og Valsmenn gjörsamlega frábærir, það besta sem maður hefur séð frá þeim í sumar," sagði Úlfur Arnar.
„Það er eins og leikmenn Skagamanna séu að spila skítþunnir, þetta er ekki boðleg frammistaða," sagði Henry Birgir.
„Það var meira af því sama í seinni hálfleik, verra ef eitthvað er. Skagaliðið leit út eins og það hafi verið í útihlaupi í snjóskafli í gærkvöldi," sagði Úlfur Arnar.
„Þetta er alveg út úr karakter hjá þeim. Enda sést hvað Jón er ósáttur við liðið. Þeir þurfa að girða sig í brók, það er nokkuð ljóst."
Valsmenn voru virkilega flottir í kvöld eftir skell gegn FH í síðustu umferð. Úlfur Arnar hrósaði liðinu í hástert.
„Hann (Túfa) er með leikmönnunum inn í klefa og á æfingum og hefur fengið 'gut feeling' að keyra á sama liði og gefa þeim tækifæri á að kvitta fyrir FH leikinn. Leikmennirnir gerðu það svo sannarlega og þökkuðu fyrir traustið," sagði Úlfur Arnar.
Athugasemdir