De Bruyne og Grealish til Napoli? - Rodrygo og Frimpong til Liverpool - Al Hilal vill tvo frá Liverpool - Tveir orðaðir frá Newcastle
   fös 09. maí 2025 19:30
Ívan Guðjón Baldursson
Ósáttur eftir umspilið: Dómarinn átti aldrei að koma nálægt þessum leik
Mynd: Bristol City
Mynd: EPA
Liam Manning aðalþjálfari Bristol City var mjög ósáttur eftir 0-3 tap á heimavelli gegn Sheffield United í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Championship umspilsins um sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Staðan var markalaus þar til í uppbótartíma fyrri hálfleiks, þegar Rob Dickie fékk beint rautt spjald fyrir brot innan vítateigs. Sjáðu atvikið.

Harrison Burrows skoraði af vítapunktinum og áttu gestirnir frá Sheffield ekki í vandræðum með að ganga frá tíu heimamönnum í síðari hálfleik. Lokatölur 0-3 og Sheffield komið með níu tær í úrslitaleik umspilsins.

„Dómarinn átti aldrei að koma nálægt þessum leik. Við hringdum í vikunni og báðum um að skipta um dómara en það var ekki tekið mark á því," sagði Manning.

Oliver Langford var á flautunni og er hann núna búinn að gefa sex rauð spjöld í síðustu tólf leikjum sem hann hefur dæmt. Þar af komu fjögur rauð spjöld í leikjum hjá Bristol City. Hann sendi tvo leikmenn Bristol af velli í jafntefli gegn Oxford í febrúar og gaf leikmanni Sunderland svo rautt spjald í sigri Bristol í apríl.

Enska dómarasambandið (PGMOL) neitaði að svara ummælum Manning og benti þess í stað á reglugerð sambandsins um val á dómurum fyrir mikilvæga leiki.

„Þetta er sami dómari og sendi Liam Walsh af velli í leiknum hjá Luton gegn Coventry á dögunum en dómnum var svo breytt því þetta átti aldrei að vera rautt spjald. Það er eins og Langford geti ekki beðið eftir því að sýna rauða spjaldið þegar hann er á flautunni," hélt Manning áfram.

„Ég get skilið að hann hafi dæmt vítaspyrnu gegn Sheffield en þetta rauða spjald átti engan rétt á sér. Það er bara rautt ef varnarmaðurinn reynir ekki við boltann, en Rob Dickie sparkaði boltanum í burtu í þessu atviki. Þessi ákvörðun er fyrir neðan allar hellur. Þetta er geðveiki."
Athugasemdir
banner
banner