HK bjargaði stigi á heimavelli gegn ÍR

Þremur síðustu leikjum kvöldsins í Lengjudeild karla er lokið, þar sem Þróttur R. sigraði gegn Keflavík á meðan Fylkir lagði Selfoss að velli og HK gerði jafntefli við ÍR.
Keflavík 0 - 1 Þróttur R.
0-1 Liam Daði Jeffs ('84)
Rautt spjald: Nacho Heras, Keflavík ('45)
Lestu um leikinn
Keflvíkingar byrjuðu betur á heimavelli gegn Þrótti, en gestirnir úr Laugardalnum fengu þó besta færið í nokkuð tíðindalitlum fyrri hálfleik.
Það dró heldur betur til tíðinda undir lok hálfleiksins þegar Nacho Heras fékk tvö gul spjöld á mettíma og var rekinn af velli. Fyrra spjaldið fékk Nacho fyrir að kvarta undan dómgæslunni þegar Keflvíkingar vildu fá vítaspyrnu en hann hætti ekki kveininu og fékk að lokum annað gult spjald að launum.
Tíu Keflvíkingar mættu því til leiks út í seinni hálfleikinn og vörðust vel. Þegar tók að líða á leikinn gerðust Keflvíkingar sífellt líklegri til að taka forystuna þar til á lokakaflanum þegar gestirnir náðu að setja boltann í netið. Liam Daði Jeffs var þar á ferðinni með frábærum skalla eftir fyrirgjöf frá hægri kanti.
Keflavík reyndi að jafna metin en hafði ekki erindi sem erfiði. Lokatölur 0-1 fyrir Þrótt eftir afar kjánalegt rautt spjald sem Nacho nældi sér í skömmu fyrir leikhlé.
Þróttur er með fjögur stig eftir tvær fyrstu umferðirnar á nýju tímabili á meðan Keflavík á þrjú stig.
Fylkir 2 - 0 Selfoss
1-0 Benedikt Daríus Garðarsson ('37)
2-0 Pablo Aguilera Simon ('68)
Lestu um leikinn
Í Árbænum tók Fylkir á móti nýliðunum frá Selfossi og fór leikurinn mjög fjörlega af stað þar sem bæði lið fengu dauðafæri á upphafsmínútunum en nýttu ekki.
Fylkismenn voru sterkari aðilinn og tóku forystuna á 37. mínútu þegar Benedikt Daríus Garðarsson skoraði eftir skyndisókn. Þeir voru óheppnir að vera ekki tveimur mörkum yfir þegar flautað var til hálfleiks.
Síðari hálfleikurinn hélt áfram í sama fari, Árbæingar stjórnuðu ferðinni og verðskuldaði Pablo Simon að skora á 68. mínútu til að tvöfalda forystuna. Pablo gerði vel að vinna boltann með pressu hátt uppi á vellinum og skoraði svo sjálfur.
Selfyssingar gerðu sig aldrei líklega til að minnka muninn og urðu lokatölur 2-0 fyrir Fylki, þægilegur sigur heimamanna. Fylkir er með fjögur stig eftir þennan sigur og Selfoss með þrjú.
HK 1 - 1 ÍR
0-1 Marc McAusland ('38)
1-1 Dagur Orri Garðarsson ('82)
Lestu um leikinn
Að lokum skildu HK og ÍR jöfn eftir hörkuslag í Kópavogi sem einkenndist af mikilli baráttu. Marc McAusland tók forystuna fyrir Breiðhyltinga á 38. mínútu með skalla eftir hornspyrnu.
HK-ingar sóttu meira en áttu erfitt með að skapa góð færi á meðan ÍR-ingar voru hættulegir úr föstum leikatriðum og skyndisóknum. Þeir komust nálægt því að tvöfalda forystuna skömmu fyrir leikhlé en tókst ekki, svo staðan var 0-1 í hálfleik.
HK stjórnaði ferðinni í síðari hálfleik en vörn ÍR hélt mjög vel, allt þar til á lokakaflanum þegar skelfileg mistök áttu sér stað í varnarleiknum. Sigurður Karl Gunnarsson átti sendingu aftur á Vilhelm Þráin Sigurjónsson í markinu en Vilhelm var ekki viðbúinn og missti af boltanum, sem rúllaði þess í stað til Dags Orra Garðarssonar. Sá var heldur betur réttur maður á réttum stað og skoraði úr auðveldu færi til að bjarga stigi fyrir HK.
Lokatölur 1-1 og eiga HK-ingar tvö stig eftir tvær fyrstu umferðirnar, á meðan ÍR er með fjögur stig.
Athugasemdir