Mohamed Salah, leikmaður Liverpool á Englandi, segir það rétt að hann og Sadio Mané hafi ekki náð vel saman á tíma þeirra hjá enska félaginu, en hann talar um þetta í viðtali við franska blaðið L'Equipe.
Afríkumennirnir spiluðu saman hjá Liverpool frá 2017 til 2022 og mynduðu þar eitt besta sóknarteymi Evrópuboltans ásamt Roberto Firmino.
Samkeppnin var mikil og reyndu leikmenn að láta kappið ekki bera fegurðina ofurliði, en árið 2019 gat Mané ekki leynt vonbrigðum sínum í 3-0 sigri á Burnley. Salah ákvað að reyna við fjórða markið í stað þess að senda á Mané.
Senegalinn var ósáttur og var síðan á endanum skipt af velli, en eftir það fóru spekingar að tjá sig um samband þeirra.
Mané var seldur til Bayern München árið 2022 og hefur Salah nú tjáð sig um samband þeirra.
„Já, það var spenna á milli mín og Sadio, en við sýndum samt alltaf fagmennsku. Ég held að það hafi ekki haft áhrif á liðið og það er bara mennskt að vilja meira. Ég skil það og hann er mikill keppnismaður.“
„Við vorum ekki mjög nánir utan vallar, en bárum samt virðingu fyrir hvorum öðrum,“ sagði Salah.
Enski spekingurinn Michael Owen kom með þá kenningu að Mané væri hættur að láta sig detta í teignum því hann vissi að Salah fengi tækifæri til að bæta við mörkum.
Owen og margir aðrir spekingar töluðu um eigingirni í leikmönnum en Salah segist vera sama um þá umræðu sem skapaðist í kringum þennan ríg.
„Mér er sama. Fólk má halda það sem það vill og það er réttur þeirra að gera það, en það er þó rétt að minna á það að ég er sú manneskja sem lagði upp flest mörk á Mané. Við getum horft á staðreyndir, en það er auðvitað auðveldast að kasta svona frösum fram því það skapar fyrirsagnir. Ég veit hvernig þetta virkar.“
„Mín vegna er þetta í fínu lagi svo lengi sem þetta sé innan virðingarmarka, en það þýðir ekki að þessi skoðun sé rétt. Þegar allt kemur til alls þá veit ég hvað ég gerði og samviska mín er hrein,“ sagði Salah.
Eins og áður kom fram fór Mané til Bayern en spilaði aðeins eitt tímabil þar. Senegalinn átti mjög stirt samband við þjálfarann og liðsfélagana og kom sér meira að segja í fréttirnar þegar hann kýldi Leroy Sane eftir leik liðsins gegn Manchester City í Meistaradeildinni.
Bayern seldi Mané til sádi-arabíska félagsins Al-Nassr sumarið 2023 og er hann enn á mála hjá félaginu í dag.
Athugasemdir