
Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Fram var að vonum sáttur að leikslokum þegar Fram vann sterkan 2-1 útisigur á Víkingi í kvöld.
„Við skorum tvö frábær mörk, börðumst allan leikinn og vörðum okkar mark vel. Víkingur voru meira með boltann en við vorum hættulegar þegar við unnum hann og skorum úr einni góðri slíkri skyndisókn í seinni hálfleik," sagði Óskar Smári eftir leik.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 2 Fram
Alda Ólafsdóttir og Murielle Tiernan eru báðar þekktar fyrir að vera miklir markaskorar. Þær skoruðu sitthvort markið í kvöld en það sást líka í kvöld hvað þær voru að tengja vel saman. ,,Ég er bara þakklátur fyrir að eiga tvo góða sentera og ég á ekki bara tvo, ég á fleiri góða sentera. Við erum að fá fleiri ógnir á bakvið og Murielle er að komast nær því sem Murielle er þekkt fyrir, hún æfði lítið sem ekkert í vetur og er að vinna sig nær og nær því standi sem hún á að vera í."
Veðrið sýndi á sér margar ólíkar hliðar í kvöld, sólin skein á köflum en inn á milli voru aðstæður frekar erfiðar. „Ég labbaði hérna út og þá var sólskin og svo kom maður út og þá var kominn snjóstormur. Ég held það hafi sést á 93. mínútu þá kom bara eins mikið haglél og ég hef séð frá því í nóvember í fyrra á miðjum vetri. Mér fannst stelpurnar díla frábærlega við það," sagði Óskar Smári.
Nánar er rætt við Óskar Smára í spilaranum hér fyrir ofan.