Arne Slot svaraði spurningum á fréttamannafundi í morgun og ræddi meðal annars um yfirvofandi brottför Trent Alexander-Arnold.
Slot hefur ekki alltof miklar áhyggjur af félagaskiptum bakvarðarins, hann segir að nú sé kominn tími fyrir næsta mann til að stíga upp og fylla í skarðið eins og hefur oft áður gerst hjá félaginu.
„Auðvitað erum við vonsviknir að missa góðan fótboltamann og frábæra manneskju eins og Trent frá félaginu en svona gerist í fótbolta. Næsti leikmaður fær núna tækifæri til að stíga upp og sanna sig," sagði Slot og átti þar við Conor Bradley, sem fær loksins tækifæri til að skína með Liverpool eftir að hafa verið varaskeifa fyrir Alexander-Arnold undanfarin ár.
„Trent er að fá meiri athygli en hann er vanur útaf þessum félagaskiptum en ég fylgist í raun ekkert með þessu. Ég er ekki hérna að segja stuðningsfólki hvernig það á að bregðast við.
„Við erum allir vonsviknir að missa Trent en hann segir það sjálfur að hann vonar að orka fólks fari í jákvæðari hluti heldur en þessi félagaskipti, eins og að reyna að sigra næsta leik. Ég vona að öll orka frá okkar stuðningsfólki á sunnudaginn fari í að styðja við bakið á leikmönnum frekar en að rífa niður Trent."
Slot hefur mikla trú á Bradley sem hefur núna nokkrar vikur fyrir sumarfrí til að sanna sig.
„Við getum allir séð hversu efnilegur Conor er. Hann er nú þegar kominn með þokkalega leikreynslu og hefur verið flottur fyrir okkur á síðustu tveimur árum. Á þessari leiktíð hefur hann verið að glíma við meiðsli, en til að verða virkilega góður leikmaður þá er nauðsynlegt að vera til taks í hverri viku. Það er fyrsta skrefið sem Conor þarf að taka á næsta tímabili - að halda sér frá meiðslum.
„Við höfum mikla trú á Conor."
Athugasemdir