Xabi Alonso þjálfari Bayer Leverkusen er á förum frá félaginu eftir tæplega þrjú ár við stjórnvölinn. Allt bendir til þess að hann muni taka við stjórn á Real Madrid eftir að spænska stórveldið rekur Carlo Ancelotti úr starfi.
Alonso lék fyrir Real Madrid á ferli sínum sem leikmaður og ríkir mikil eftirvænting fyrir þessum þjálfaraskiptum. Alonso er þó ekki eina stjarnan sem virðist vera á förum frá Leverkusen, því sóknartengiliðurinn öflugi Florian Wirtz er einnig á leið burt.
Nokkur af stærstu liðum evrópska fótboltaheimsins eru áhugasöm um Wirtz en þýskir fjölmiðlar eru sannfærðir um að hann muni ganga til liðs við FC Bayern.
Bild er meðal fjölmiðla sem greindi frá því að Wirtz hafi átt samræður við Xabi Alonso og sagt honum þar að hann vildi einungis skipta til Bayern.
„Florian Wirtz sagði ekki við mig að Bayern sé eini áfangastaðurinn sem kemur til greina. Þetta er ekki satt," sagði Alonso meðal annars þegar hann tilkynnti að hann myndi yfirgefa Leverkusen eftir tímabilið.
Talið er að Wirtz sé að velja á milli Bayern og Manchester City, en hann hefur ennþá rúman mánuð til að taka ákvörðun.
Athugasemdir