Ítalski varnarmaðurinn Leonardo Bonucci skipti frá Juventus og yfir til Union Berlin á dögunum en hann er afar ósáttur með þá meðhöndlun sem hann fékk hjá Juve fyrir félagsskiptin.
Bonucci er svo ósáttur að Sky á Ítalíu heldur því fram að hann ætli að kæra félagið fyrir samningsbrot.
36 ára gamall Bonucci átti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Juventus eftir síðustu leiktíð og voru skilaboðin sem hann fékk í sumar frá stjórn félagsins skýr: Juve vildi losa sig við Bonucci sem fyrst til að lækka launakostnað og skapa aukapláss í leikmannahópinum.
Það var þó ekkert félag sem var reiðubúið til að bjóða Bonucci svipaðan samning og hann var með hjá Juve, svo Juve ákvað að gera sitt besta til að bola honum út. Bonucci fékk ekki að fara með félaginu í æfingaferð á undirbúningstímabilinu og fékk heldur ekki að æfa með restinni af leikmannahópinum.
Varnarmaðurinn heldur því fram að félagið hafi viljandi meinað honum aðgengi að nauðsynlegum æfingum og æfingatækjum. Bonucci segir að þetta hafi valdið sér miklum skaða sem atvinnumanni í fótbolta, sérstaklega vegna þeirra álitshnekkja sem hann hefur orðið fyrir. Bonucci er mjög sár eftir að hafa misst sæti sitt í ítalska landsliðinu og vill að Juve gjaldi fyrir óíþróttalega hegðun sína.
„Ég neyddist til að æfa einn míns liðs á kvöldin þegar engir þjálfarar eða samherjar voru á svæðinu. Mér var meinaður aðgangur að líkamsræktarstöðinni, íþróttasalnum, sundlauginni og veitingastaðnum," er meðal þess sem Bonucci hefur sagt um síðasta sumarið sitt hjá Juventus.
Bonucci hefur í heildina leikið yfir 500 leiki fyrir Juve og er hneykslaður á framkomu félagsins. Hann fer fram á miskabætur frá félaginu, sem hann ætlar að gefa til góðgerðarstarfs.