
„Gríðarlega svekktur að fá ekkert út úr þessum leik," sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH eftir 3-2 tap gegn Þrótti á Kaplakrikavelli í kvöld.
„Ég veit að ég er ekki hlutlaus en ég held að við höfum verið síst slakari aðilinn í þessum leik, við áttum svo sannarlega skilið eitthvað út úr honum. Vinnuframlag leikmanna var frábært. Ég ætla rétt að vona að þetta hafi verið rangstaða í lokin, ég ætla rétt að vona það, annars vorum við rænd stigi."
Lestu um leikinn: FH 2 - 3 Þróttur R.
Guðni telur FH liðið átt skilið stig úr þessum leik en þær hefðu getað sett fleiri mörk í þessum leik.
„Boltinn fór tvisvar sinnum í tréverkið og við fengum fín færi. Í stöðunni 0-0 fannst mér við vera líklegri aðilinn til að skora, við fáum á okkur síðan mark, stöngin og kastast í bakið á Aldísi og inn fyrsta markið, mistök síðan hjá Aldísi í marki tvö og víti í marki þrjú, þetta eru mörkin sem við fáum á okkur. Það er bara svekkjandi en við fengum færi og hefðum getað skorað fleiri mörk og áttum að gera það og kannski, ég veit það ekki, vonandi var þetta rangstaða."
FH lendir 2-0 undir í leiknum, minnkar muninn í 2-1, lendir undir 3-2, minnkar muninn í 3-2 undir lokin og voru nálægt því að ná stigi í þessum leik. Liðið gafst aldrei upp og Guðni getur ekki verið annað en sáttur með karakterinn.
„Ekki spurning, þetta er það sem liðsíþrótt snýst um og það er nú þannig að FH liðið gefst aldrei upp burt séð frá því hver staðan er, þá er það bara þannig að það er óbilandi trú leikmanna og þjálfara og þeirra sem eru í kringum liðið að við getum komið til baka og trú flytur fjöll og það er það sem kemur manni áfram. Þú hengir aldrei haus," sagði Guðni.
Nánar er rætt við Guðna í spilaranum hér að ofan.