Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   þri 12. september 2023 15:13
Elvar Geir Magnússon
Forsprakki Football Leaks sleppur við fangelsi
Rui Pinto, forsprakki Football Leaks.
Rui Pinto, forsprakki Football Leaks.
Mynd: Spiegel
Rui Pinto, forsprakki Football Leaks vefsíðunnar sem lak ýmsum upplýsingum úr fótboltaheiminum til almennings og fjölmiðla, sleppur við fangelsisdóm en dómur yfir honum var kveðinn upp í Portúgal í dag.

Pinto er 34 ára og stofnaði vefsíðuna 2015 en á henni lak hann fjölmörgum upplýsingum. Hann fékk fjögurra ára skilorðsbundinn dóm.

Hann sagði aðgerðir sínar í þágu almannahagsmuna til að afhjúpa spillingu í fótbolta. Í dómnum segir hinsvegar að frelsið til að upplýsa gæfi ekki rétt til að brjóta friðhelgi einkalífsins.

Til þess að öðlast upplýsingarnar þurfti Pinto, ásamt aðstoðarmönnum sínum, að 'hakka sig inn' á ýmsar síður og vefpóstsreikninga.

Meðal þess sem hann lak út voru samningar Lionel Messi og Neymar, leynilegar viðræður um stofnun Ofurdeildar Evrópu og meint skattsvik nokkurra leikmanna í fremstu röð.

Þá veitti hann þýska blaðinu Der Spiegel upplýsingar sem urðu til þess að fullyrt var að Manchester City hefði með klækjabrögðum komist upp með brot á fjárhagsreglum UEFA.

Athugasemdir
banner