Hollenski kantmaðurinn Anwar El Ghazi hefur verið orðaður við félagsskipti til Manchester United á frjálsri sölu eftir að hann fékk samningi sínum við PSV Eindhoven rift. Sky Sports segir ekkert vera til í þessum orðrómi.
El Ghazi er 28 ára gamall og lék fyrir Aston Villa og Everton í ensku úrvalsdeildinni áður en hann skipti yfir til PSV í fyrra.
El Ghazi kom að 12 mörkum í 31 leik með PSV en fékk samningi sínum rift eftir aðeins eitt ár hjá félaginu.
Sky segir að þrátt fyrir vandræði með kantmenn innan herbúða Man Utd hafi Erik ten Hag knattspyrnustjóri ekki áhuga á El Ghazi.
Rauðu djöflarnir borguðu háar upphæðir fyrir Jadon Sancho og Antony en þeir eru að glíma við sitthvort vandamálið. Antony er í fríi á meðan kynferðisbrotamál er í rannsókn og Sancho reifst við Ten Hag í fjölmiðlum, eftir að Ten Hag gagnrýndi leikmanninn fyrir slaka frammistöðu á æfingum.
Það verður áhugavert að fylgjast með næsta skrefi El Ghazi sem er frjáls ferða sinna og gæti skipt aftur í ensku úrvalsdeildina.