Það var nóg um að vera í undankeppni fyrir Evrópumótið í kvöld þar sem Svíþjóð tók á móti Austurríki í toppbaráttu F-riðils.
Svíar þurftu sigur til að blanda sér í toppbaráttu riðilsins og áttu frábæran fyrri hálfleik, en tókst ekki að skora. Gæði Austurríkismanna komu í ljós í seinni hálfleik þegar Michael Gregoritsch og Marko Arnautovic skoruðu eftir undirbúning frá Sebastian Posch og Marcel Sabitzer.
Arnautovic bætti þriðja markinu við úr vítaspyrnu áður en Emil Holm minnkaði muninn fyrir Svíþjóð en það dugði ekki til. Lokatölur 1-3 og er Austurríki jafnt Belgíu með 13 stig á toppi riðilsins, með sjö stiga forystu á Svíþjóð í þriðja sæti.
Belgía rúllaði þá yfir Eistland þar sem Romelu Lukaku skoraði tvö og gaf stoðsendingu í fimm marka sigri.
Ítalía lagði þá Úkraínu að velli eftir fjöruga viðureign þar sem Ítalir sýndu frábæran fótbolta en Úkraínumenn gáfu ekkert eftir og héldu spennu í leiknum allt til lokaflautsins.
Miðjumaðurinn Davide Frattesi skoraði bæði mörk Ítala í fyrri hálfleik þar sem heimamenn áttu magnaðan fyrsta hálftíma og hefðu getað skorað fleiri mörk. Andriy Yarmolenko minnkaði muninn skömmu fyrir leikhlé eftir vandræðagang í ítölsku vörninni og var staðan því 2-1 í hálfleik.
Ítalir voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik en þeim tókst ekki að skora þrátt fyrir góð færi. Úkraínumenn sköpuðu sér ekki mikið en það var þó spenna í loftinu, en að lokum verðskuldaði Ítalía sigurinn.
Ítalía er með sjö stig eftir fjórar umferðir og er sex stigum á eftir Englandi, en með einn leik til góða.
Úkraína og Norður-Makedónía eru jöfn Ítalíu á stigum en Ítalir eiga leik inni gegn botnliði Möltu.
Svíþjóð 1 - 3 Austurríki
0-1 Michael Gregoritsch ('53 )
0-2 Marko Arnautovic ('56 )
0-3 Marko Arnautovic ('69 , víti)
1-3 Emil Holm ('90 )
Belgía 5 - 0 Eistland
1-0 Jan Vertonghen ('4 )
2-0 Leandro Trossard ('18 )
3-0 Romelu Lukaku ('56 )
4-0 Romelu Lukaku ('58 )
5-0 Charles De Ketelaere ('88 )
Ítalía 2 - 1 Úkraína
1-0 Davide Frattesi ('12 )
2-0 Davide Frattesi ('29 )
2-1 Andriy Yarmolenko ('41 )
Malta 0 - 2 N-Makedónía
0-1 Eljif Elmas ('5 )
0-2 Kosta Manev ('41 )
Spánn 6 - 0 Kýpur
1-0 Gavi ('18 )
2-0 Mikel Merino ('33 )
3-0 Joselu ('70 )
4-0 Ferran Torres ('73 )
5-0 Alex Baena ('77 )
6-0 Ferran Torres ('83 )
Noregur 2 - 1 Georgía
1-0 Erling Haland ('25 )
2-0 Martin Odegaard ('33 )
2-1 Budu Zivzivadze ('90 )
Sviss 3 - 0 Andorra
1-0 Cedric Itten ('49 )
2-0 Granit Xhaka ('84 )
3-0 Xherdan Shaqiri ('90 , víti)
Ísrael 1 - 0 Belarús
1-0 Gavriel Kanichowsky ('90 )
Rúmenía 2 - 0 Kósovó
0-0 Nicolae Stanciu ('59 , Misnotað víti)
1-0 Nicolae Stanciu ('83 )
2-0 Valentin Mihaila ('90 )
Rautt spjald: Vedat Muriqi, Kósovó ('42)
Erling Braut Haaland og Martin Ödegaard skoruðu þá í sigri Norðmanna gegn Georgíu er liðin mættust í A-riðli. Haaland og Ödegaard skoruðu mörkin í fyrri hálfleik og tókst gestunum að minnka muninn á lokamínútunum.
Norðmenn voru sterkari aðilinn og hefðu hæglega getað unnið stærra, en þeir eru aðeins komnir með sjö stig eftir fimm fyrstu umferðirnar. Þeir eiga afar erfiðan veg framundan ætli þeir sér á lokamót EM, þar sem Spánverjar eru í öðru sæti, með tveimur stigum meira og leik til góða.
Spánverjar skoruðu sex mörk í auðveldum sigri gegn Kýpur þar sem Nico Williams lagði upp tvö í fyrri hálfleik og Dani Carvajal tvö í þeim seinni. Ferran Torres kom inn af bekknum í seinni hálfleik og skoraði tvennu.
Spánn er sex stigum eftir toppliði Skota og með leik til góða eftir þennan sigur.
Ísrael sigraði þá gegn Belarús og er í þriðja sæti I-riðils, þremur stigum eftir toppliði Sviss sem lagði Andorra að velli.
Rúmenía er í öðru sæti eftir sigur gegn Kósovó þar sem stöðva þurfti leikinn í fyrri hálfleik vegna kynþáttafordóma af hálfu rúmenskra áhorfenda í garð gesta sinna.
Rúmenar voru manni fleiri eftir að Vedat Muriqi, stjörnuleikmaður Kósovó, fékk tvö gul spjöld í fyrri hálfleik, og unnu að lokum. Rúmenar eru einu stigi fyrir ofan Ísrael í baráttunni um annað sætið.