Phil Foden, Jude Bellingham og Harry Kane skoruðu mörk Englendinga gegn Skotum en það var miðvörðurinn Harry Maguire sem gerði eina mark Skota í leiknum, þegar hann setti boltann í eigið net eftir fyrirgjöf frá Andy Robertson.
Maguire hafði aðeins verið á vellinum í um 20 mínútur, eftir að hafa komið inn fyrir Marc Guehi í hálfleik, þegar hann setti boltann í eigið net. Staðan var þá orðin 1-2 en Kane innsiglaði sigurinn á 81. mínútu eftir stoðsendingu frá Bellingham.
Þjóðverjar mættu þá til leiks í sínum fyrsta leik án Hansi Flick eftir rúmlega tvö ár undir hans stjórn. Thomas Müller kom heimamönnum yfir snemma leiks eftir stoðsendingu frá Benjamin Henrichs og héldu Þjóðverjar vel í forystuna.
Það ríkti þokkalegt jafnræði innan vallar en Frakkar voru þó talsvert hættulegri í sínum sóknaraðgerðum, án þess að takast að skora. Það var Leroy Sane sem tvöfaldaði forystu heimamanna eftir undirbúning frá Kai Havertz á 87. mínútu og minnkaði Antoine Griezmann muninn skömmu síðar með marki úr vítaspyrnu.
Nær komust Frakkar þó ekki og urðu lokatölur 2-1 fyrir Þýskaland, en þetta er aðeins annar sigur Þjóðverja síðan liðið datt úr leik í riðlakeppni HM í Katar.
Skotland 1 - 3 England
0-1 Phil Foden ('32)
0-2 Jude Bellingham ('35)
1-2 Harry Maguire ('67, sjálfsmark)
1-3 Harry Kane ('81)
Þýskaland 2 - 1 Frakkland
1-0 Thomas Muller ('4)
2-0 Leroy Sane ('87)
2-1 Antoine Griezmann ('89, víti)