„Þetta var sannarlega góð ferð í vesturbæinn, þrjú stig, fjögur mörk og að halda markinu hreinu er mjög gott," sagið Ásmundur Arnarsson þjálfari Breiðabliks eftir 0-4 sigur á KR í Bestu-deild kvenna í kvöld.
Lestu um leikinn: KR 0 - 4 Breiðablik
„Leikurinn var eins og við bjuggumst við. Þær lágu niðri og reyndu að beita skyndisóknum. Okkar hlutverk var að reyna að stjórna leiknum og skapa okkur góðar stöður," sagði hann.
„Það er alltaf spurning um að missa ekki boltann á slæmum stöðum og fá það á sig en heilt yfir var þetta fínt. Það voru hlutir sem við vildum gera betur, þær fengu moment sem þær hefðu geta refsað okkur fyrir. Það eru hlutir sem við þurfum að skoða betur og reyna að vinna í og laga."
Alexandra Jóhannsdóttir landsliðskona gekk í raðir Breiðabliks á láni frá Frankfurt í gær. Hvernig var að fá hana inn í liðið?
„Það var frábært, það er frábært að fá Alexöndru inn og líka þær sem voru í Bandaríkjunum, Áslaugu Mundu og Hildi Þóru sem voru komnar í hópinn. Hópurinn er þéttur, flottur og virkilega spennandi."
Það hefur oft verið kvartað yfir að KSÍ setji ekki bestu dómarana á kvennaleiki en dómarinn í kvöld var Egill Arnar Sigurþórsson, einn besti dómari landsins.
„Við fengum toppdómara í dag og það er vel, bara flott og gaman að því. Ég er ánægður með Egil."
Nánar er rætt við Ása í spilaranum að ofan en hann segir að Anna Petryk hafi fengið hnjask í síðasta leik og var því hvíld í dag.