
Orri Steinn Óskarsson byrjaði í fyrsta sinn með A-landsliðinu þegar Ísland vann dramatískan sigur gegn Bosníu síðasta mánudagskvöld. Orri átti flottan leik í góðum sigri.
Orri, sem er 19 ára gamall, er eitt mesta efni sem við Íslendingar eigum en í upphafi tímabilsins hefur hann verið byrjunarliðsmaður fyrir FC Kaupmannahöfn, sem er stærsta félagið á Norðurlöndum.
„Það er greinilegt að Age lítur á þennan mann - skiljanlega - til að leiða sóknarlínuna okkar," sagði Elvar Geir Magnússon þegar rætt var um Orra í Innkastinu eftir leikinn gegn Bosníu.
„Ég ætla að vona að þetta komi ekki fólki á óvart. Hann er framherji FC Kaupmannahafnar. Hann verður Meistaradeildarleikmaður í næstu viku," sagði Tómas Þór Þórðarson.
„Það hefði verið mjög áhugavert að sjá striker með honum frammi, hann var svolítið einangraður í baráttu við þessa stæðilegu hafsenta hjá Bosníu. Snúningar, sendingar, gæinn er bara með þetta allt. Hann er á leið til tunglsins, það segir sig bara sjálft."
Í september, 2019, þegar Orri var 15 ára gamall, fór hann til FCK frá Gróttu. Orri fór í unglingaakademíuna hjá FCK og það er óhætt að segja að hann hafi raðað inn mörkum þar. Hann var með Rasmus Höjlund, núverandi sóknarmanni Manchester United, í akademíunni og þeir spiluðu saman. Orri var með betra markahlutfall en maðurinn sem Man Utd borgaði 72 milljónir punda fyrir.
„Hann var bara að leika sér að þessu. En þetta er tröppugangur og oft rekurðu þig á vegg. Þetta er eins í golfinu, forgjöfin hrynur niður og á einhverjum tímapunkti ertu á stigi sem þú þarft að berjast við. Hann er væntanlega á því núna, að vera byrjunarliðsmaður í FCK, að spila í Meistaradeildinni og að byrja í landsliðinu. Ég er alveg brjálæðislega spenntur fyrir honum. Ekki bara út af því hversu góður hann er, hann er líka með þennan skrokk. Það þarf að gefa honum aðeins fleiri samlokur og senda hann aðeins oftar í ræktina. Þá verður þetta algjör tankur," sagði Tómas Þór.
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á viðtal sem var tekið við Orra eftir leikinn við Bosníu.
draumurinn sem varð að veruleika pic.twitter.com/wKFgpYa6og
— orri steinn (@orristeinn29) September 13, 2023
Athugasemdir