Endrick er framtíðarframherji Real Madrid eftir að félagið festi kaup á honum í desember í fyrra.
Hinn bráðefnilegi Endrick verður þó eftir innan herbúða Palmeiras þar til á næsta ári, þegar hann verður 18 ára gamall. Þá mun hann flytja til Spánar og ganga í raðir Real Madrid.
„Mér finnst leiðinlegt að fara út á lífið eða í partý. Mér finnst ekki gaman að skemmta mér niðrí bæ. Eina sem mig langar að gera er að spila fótbolta og njóta lífsins með fjölskyldunni," segir Endrick, sem er gríðarlega spenntur fyrir félagsskiptunum sínum þar sem franska stórstjarnan Kylian Mbappé virðist einnig vera á leið til Madrídar.
„Ég er stuðningsmaður Madrid og vill alltaf fá góða leikmenn til félagsins. Það væri stórkostlegt að fá Mbappe til félagsins."
Dani Carvajal, hægri bakvörður Real Madrid, tjáði sig einnig í fjölmiðlum en hann verður 32 ára eftir áramót og getur ekki búist við að vera hjá Real í mörg ár til viðbótar. Hann á tvö ár eftir af samningi sínum við félagið, eftir að hafa spilað 379 leiki á tíu árum.
„Ég elska Real Madrid og ég býst við að eitt það erfiðasta sem ég mun gera á ferlinum verði að yfirgefa félagið þegar sá tími rennur upp."