
Arnór Ingvi Traustason hefur verið að spila frábærlega upp á síðkastið með Norrköping í Svíþjóð.
Hann hefur verið að skora mikið og er að spila sinn besta fótbolta síðan 2019. Glen Riddersholm, þjálfari Norrköping, segir að Arnór sé besti miðjumaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni.
Arnór Ingvi var á dögunum valinn leikmaður mánaðarins í Svíþjóð en hann segist vera að spila sinn besta fótbolta síðan 2019.
„Ég myndi segja að þetta sé á pari við 2019 árið mitt með Malmö. Mér líður mjög vel, er með mikið sjálfstraust og er búinn að finna mig í þessari stöðu sem ég hef eignað mér í Svíþjóð og líður mjög vel í stöðunni sem ég spilaði með landsliðinu gegn Portúgal. Ég er að njóta líka á meðan þessu stendur," sagði Arnór í samtali við Fótbolta.net á dögunum.
Arnór spilaði frábærlega í síðasta landsleik gegn Bosníu en fyrir þann leik var Ísak Andri Sigurgeirsson spurður út í leikmanninn. Ísak er í U21 landsliðinu en spilar með Arnóri hjá Norrköping. Ísak gekk í raðir sænska félagsins í sumar en Arnór hefur hjálpað honum að aðlagast.
„Arnór og Ari hafa hjálpað mér mjög mikið að komast inn í þetta, og Andri (Lucas Guðjohnsen) líka þegar hann var þarna," sagði Ísak sem lagði upp mark fyrir Andra Lucas í 2-1 sigri U21 landsliðsins gegn Tékklandi í gær.
„Hann er ekkert eðlilega góður. Hann er allt öðruvísi en ég hélt að hann væri sem leikmaður. Hann er einn sá besti sem ég hef spilað með, 100 prósent."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að neðan.
Athugasemdir