Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   mið 13. september 2023 23:32
Brynjar Ingi Erluson
Íslandsdvölin mikilvægasta ákvörðun ferilsins - „Það var áhætta að fara þangað en hún borgaði sig“
Ryan Allsop
Ryan Allsop
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Enski markvörðurinn Ryan Allsop tók stóra ákvörðun á ferlinum er hann ákvað að yfirgefa Bretlandseyjar og spila með Hetti á Egilsstöðum fyrir ellefu árum síðan, en það átti heldur betur eftir að borga sig.

Allsop, sem var 19 ára á þeim tímanum, stóð á krossgötum. Hann hafði yfirgefið Millwall og var í leit að nýju félagi en það kom gluggi þar sem lið voru ekki að æfa og þurfti hann því eitthvað nýtt.

Hann ákvað að halda til Íslands og spila með Hetti í fyrstu deildinni. Þar lék hann átta deildarleiki og þrjá í bikar áður en hann hélt aftur til Bretlandseyja.

Eftir að hann sneri aftur til síns heimalands samdi hann við Leyton Orient. Hann hefur spilað fyrir klúbba á borð við Bournemouth, Cardiff, Portsmouth, Derby og Coventry síðan en í sumar samdi hann við Hull í ensku B-deildinni.

Allsop hefur áður talað um dvölina og álítur hann það greinilega sem afar mikilvægan hluta ferilsins.

„Þetta var svakaleg reynsla. Þetta var ekki eitthvað sem ég var rosalega til í áður en ég fór þangað. Ég tók samt stökkið ef svo má að orði komast. Þetta var frábær reynsla fyrir mig og eitthvað sem ég tala um að hafi hjálpað mér að komast á þann stað sem ég er í dag.“

„Það er auðvelt fyrir unga markverði að detta úr leiknum og sleppa því að taka áhættu. Það var áhætta fyrir mig að fara þangað en fyrir mig þá borgaði hún sig.“

„Þetta var bara stuttur tími, í einhverja tvo mánuði, þegar tímabilið var ekki í gangi á Englandi, en þetta var tækifæri til að spila fullorðins fótbolta og þegar ég kom aftur til Englands og fór á reynslu hjá öðrum félögum þá borgaði það sig margfalt.“

„Þessi andlegi styrkur að fara þangað og viljinn að gera betur og koma mér í bestu mögulegu stöðuna og það að flytja að heiman og í annað land var afar stórt skref fyrir mig.“

„Ég var 19 ára á þessum tíma. Þetta var svakalegur lærdómur fyrir mig að spila fullorðinsfótbolta, í þessu skjólleysi og það sýnir bara fólki hversu mikið ég vildi þetta og það hjálpaði mér mikið,“
sagði hann við Hull Daily Mail.

Sjá einnig:

Dvölin á Íslandi hjálpaði mikið
Ryan Allsop: Verð ævinlega þakklátur öllum á Egilsstöðum
Athugasemdir
banner
banner